Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telja fjármálastjóra WOW hafa verið valdalausan

16.10.2020 - 10:45
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur hafa komist að þeirri niðurstöðu að krafa Stefáns Eysteins Sigurðssonar, fyrrverandi fjármálastjóra WOW, í þrotabú flugfélagsins upp á rúmar 14 milljónir eigi að njóta forgangs. Annar af skiptastjórum þrotabúsins er undrandi á þessari niðurstöðu og ætlar að leita eftir leyfi hjá Hæstarétti til að áfrýja henni.

Almenna reglan við uppgjör þrotabúa hefur verið sú að þeir sem koma að rekstri félaga eigi ekki rétt á forgangskröfum. Þeir eru taldir vita meira um stöðu viðkomandi félags en venjulegir starfsmenn og um það var tekist í máli fjármálastjórans fyrrverandi.

Stefán Eysteinn sagði í greinargerð sinni til héraðsdóms að ábyrgð á daglegum rekstri hefði verið í höndum forstjóra og aðstoðarforstjóra WOW air sem hefðu tekið nær allar ákvarðanir um daglegan rekstur.  Hann benti jafnframt á að allur rekstur flugfélaga gengi út á flugáætlun. Þær ákvarðanir væru teknar í rekstrardeild sem hann hefði ekki komið beint að.  

Hans hlutverk hefði fyrst og fremst verið að tryggja að rekstrarupplýsingar bærust tímanlega, leita tilboða og ná fram hagræðingu varðandi kostnað. Hann hefði hvorki tekið ákvarðanir varðandi kostnað né tekjuöflun. Hann hefði lotið boðvaldi aðstoðarforstjóra og forstjóra flugfélagsins og ekki getað skuldbundið félagið nema að mjög takmörkuðu leyti.

Þorsteinn Einarsson, annar af skiptastjórum þrotabúsins, var þessu ósammála. Hann taldi að  vegna stöðu sinnar hefði Stefán haft upplýsingar um bága fjárhagsstöðu WOW air í langan tíma fyrir gjaldþrot félagsins. Honum hefði átt að vera kunnugt í hvað stefndi hjá WOW.  

Þá taldi Þorsteinn það ámælisvert að Stefán skyldi hafa fyrirskipað gjaldkera félagsins að greiða Títan, fjárfestingafélagi í eigu forstjóra félagsins, yfir 100 milljónir þann 6. febrúar í fyrra, löngu fyrir gjalddaga þeirrar kröfu.  Þessi ákvörðun staðfesti hins vegar stöðu Stefáns hjá félaginu.

Héraðsdómur segir í úrskurði sínum að Stefán hafi verið einn af sjö framkvæmdastjórum WOW og hafi sem slíkur haft takmörkuð áhrif á rekstur félagsins. Þá verði ekki talið að seta hans í framkvæmdastjórn hafi falið í sér raunverulegt vald til að hafa áhrif á mikilvægar ákvarðanir. Þá hafi aðrir framkvæmdastjórar fengið kröfur sínar viðurkenndar sem forgangskröfur.

Þá bendir dómurinn á að það hafi verið eðlilegt að Stefán hefði prókúru þar sem rekstur WOW væri þess eðlis að gera mætti ráð fyrir töluverðri fjarveru daglegra stjórnenda. Þetta endurspegli ekki aukna þátttöku í daglegum rekstri. 

Dómurinn viðurkennir að vissulega hafi laun fjármálastjórans verið há eða 2,4 milljónir á mánuði. Engin gögn liggi þó fyrir hvort hann hafi verið með hærri laun en aðrir framkvæmdastjórar félagsins.  Þá liggi ekkert fyrir um annað en að launin hafi frekar endurspeglað laun millistjórnenda hjá stóru félagi en forstjóra eða stjórnenda í svipaðri stöðu.

Þorsteinn Einarsson, annar af skiptastjórum þrotabús WOW, segist í samtali við fréttastofu vera undrandi á niðurstöðu Landsréttar og héraðsdóms. Hann ætlar að leita eftir leyfi hjá Hæstarétti til að áfrýja henni. 

Krafa Stefáns var í upphafi mun hærri eða nærri 40 milljónir. Þetta voru laun fyrir marsmánuð, tólf mánaða uppsagnafrestur, bifreiðastyrkur, orlof og desemberuppbót. Hún var hins vegar lækkuð verulega við munnlegan málflutning þar sem hann féll kröfu um bifreiðastyrk, laun á uppsagnarfresti frá ágúst 2019 til mars 2020 auk orlofs.