Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Sóttvarnaaðgerðir verði í grundvallaratriðum áfram eins

16.10.2020 - 10:18
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, starfandi heilbrigðisráðherra, gerir ráð fyrir að sóttvarnaaðgerðir verði í grundvallaratriðum áfram eins á höfuðborgarsvæðinu næstu tvær til þrjár vikur. Minnisblað sóttvarnalæknis er á meðal þess sem nú er rætt á ríkisstjórnarfundi.

Guðmundur gerir ráð fyrir að meira samræmi verði í sóttvarnaaðgerðum um landið allt en að áfram verði þó harðari aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar.

„Það er verið að meina til dæmis tveggja metra regluna. Að þau nálægðarmörk gildi á öllu landinu. Það er meðal þess sem sóttvarnalæknir leggur til í sínu minnisblaði,“ segir Guðmundur.

Aðspurður hvort stjórnvöld hyggist slaka á aðgerðum segir hann svo ekki vera. „Nei, fyrst og fremst erum við í ráðuneytinu að skoða skilgreiningaatriði. Það er verið að kanna það sem snýr að þáttum sem voru tilmæli áður og sóttvarnalæknir er að leggja til að verði tillögur núna,“ segir hann. Til að mynda leggi sóttvarnalæknir til að sum af tilmælum um íþróttastarf verði tillögur að beinum aðgerðum.