Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Pattstaða í viðræðum um viðskiptasamning Breta og ESB

16.10.2020 - 20:22
Mynd: EPA-EFE / AFP POOL
Bæði Boris Johnson forsætisráðherra Breta og Evrópusambandið telja að viðræður um viðskiptasamninga strandi á mótaðilanum, en hvorugur aðilinn vill þó hætta viðræðum. Útganga Breta úr Evrópusambandinu var rædd á leiðtogafundi ESB í Brussel í gær og bundin slaufa á þá umræðu með yfirlýsingu þar sem Bretar eru beðnir um að sýna nú samningsvilja. Boris Johnson forsætisráðherra Breta sagði svo í dag ESB þyrfti að koma til móts við og sýna skilning á kröfum Breta sem væru annars alveg tilbúnir að lát

Enn verður rætt um samning  í Lundúnum á mánudaginn

Samningsstíll Johnsons frá upphafi hefur verið að láta líta út eins og hann sé gallharður á að fái Bretar ekki það sem þeir vilja þá bara fari þeir samningslaust. Deilt um hvort það eru látalæti eða hvort Johnson sé pollrólegur yfir samningsleysi um áramótin Í yfirlýsingu ESB  var rifjað upp að Bretar vilji náið samband við ESB.  Charles Michel forseti ráðherraráðsins undirstrikaði það eftir leiðtogafundinn í gær að samstaðan innan ESB væri 100% og fullt traust borið til aðalsamningamannsins, Michels Barniers. Michel hvatti Breta til að taka nú nauðsynleg skref og framfylgja útgöngusamningnum en breska stjórnin hefur lagt fram frumvapr sem brýtur gegn samningnum. Þá minnti hann ESB-löndin á að undirbúa sig undir að Bretar færu án viðskiptasamnings. 

Klukkan tifar og hvar er ákefðin?

Þó að þetta hljómi ekki svo ögrandi þá er tíminn orðinn naumur. Johnson hefur sjálfur sagt að 15. október sé úrslitadagurinn; ef engir samningar þá, bara best að hætta – reyndar áður margsett sér Brexit-dagsetningar sem ekki staðist. Mögulegt er talið að breska stjórnin hafi staldrað við það í gær að þar var hvergi minnst á ákefð.  David Frost aðalsamningamaður Breta nefndi þetta í tísti í gær: að ESB hefði sagt, eftir viðræður Johnsons og Ursulu von den Leyen forseta framkvæmdastjórnar í byrjun október, að viðræðurnar yrðu ákafar. Þetta orð, á ensku ,,intensively,“ var ekki í yfirlýsingunni gær. Bresku stjórninni virðist því hafa þótt ESB-yfirlýsingin heldur daufleg.

Johnson segist þá vilja hafa þetta eins og Ástralar - en þeir hafa engan samning í raun

Johnson sagði að þar sem ESB hafi neitað að semja af alvöru marga undanfarna mánuði og að leiðtogafundurinn hafni viðskiptasamning í líkingu við samning ESB við Kanada þá ályktar Johnson að það sé best að stefna á fyrirkomulag eins og Ástralía hafi. ESB og Kanada gerðu með sér fríverslunarsamning 2014 en eins og gildir um fríverslunarsamninga: þeir eru sérsniðnir fyrir einstök lönd. Sjónarmið ESB er að munurinn á Bretlandi og Kanada sé að Bretland er næsti nágranni, samkeppnisreglur skipti öllu, helsta ásteytingarefnið, í viðbót við fiskveiðar. Þetta með Ástralíu er kannski sérkennilegri ósk því síðan 2018 hefur Ástralía verið í viðræðum við ESB um fríverslunarsamning af því þeir hafa engan fríverslunarsamning,  ástralska fyrirkomulagið er í raun annað orð yfir engan samning.

Mikið karp en samt enn búist við samningi 

Þegar Boris Johnson var þýfgaður um hvort hann væri að slíta lét hann ganga á sig en svaraði svo að Bretar væru alltaf til í að hlusta ef ESB skipti um skoðun en það liti ekki svo út eftir leiðtogafundi.  Charles Michel forseti ráðherraráðs ESB hnykkti á að sambandinu væri í mun að halda í frið á Írlandi og heildstæðni innri markaðarsins. Ursula von der Leyen tísti að ESB héldi áfram að vinna að samningum en ekki fyrir hvað sem væri. Samningateymi ESB færi til London í næstu viku til að hleypa krafti í samningaviðræðurnar, kannski þarna að koma með orðin sem Bretar vilja heyra. Samningafundir í næstu viku og allt sem fyrr, ósamið, alla vega í bili.  Flestir búist við einhverjum samningum, einhverju sem forði samningslausri útgöngu Breta um áramótin. Johnson og breska stjórnin eiga sína pólitísku framtíð undir samningi. Bretland talið tæplega undirbúið að standa án samninga við sína stærstu viðskiptablokk meðan slíkt högg dreifist af mismunandi þunga á ESB-löndin 27.