Metfjöldi stundar nú nám við fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólans á Hólum. Aukningin er mest í eins árs diplómanámi í fiskeldi. Í fyrra byrjuðu 15 nemendur í náminu, í ár byrjuðu 31. Auk grunnnámsnema stundar 21 framhaldsnemi nám við deildina, tíu doktorsnemar og 11 meistaranemar.
Stór hátæknifyrirtæki sem krefjist tæknikunnáttu
Bjarni Kristófer Kristjánsson, prófessor og deildarstjóri fiskeldis- og fiskalíffræðideildar segir aukna aðsókn líklega skýrast af því að áhugi fólks á fiskeldi sé almennt að aukast. Fiskeldi sé mikið í umræðunni enda sé það vaxandi grein í landinu.
Hann segir fiskeldisfyrirtæki stór hátæknifyrirtæki sem krefjist tæknikunnáttu og námið geri fólki kleift að fá vinnu í heimabyggð. „Við sjáum það að stór hluti nemendahópsins okkar er utan af landi og stór hluti er nú þegar að vinna í fiskeldi þannig að fyrirtækin eru að einhverju leyti að senda nemendur í nám líka,“ segir Bjarni Kristófer.
4 milljóna evra styrkur í þróun kennsluefnis
Deildin hlaut nýverið styrk frá Erasmus+. Verkefnið er samstarfsverkefni skóla og fyrirtækja í Noregi, Íslandi, Svíþjóð og Finnlandi og er meginmarkmið þess að bæta kennslu í fiskeldi með áherslu á starfsnám í fiskeldisstöðvum. Styrkurinn hljóðar upp á fjórar milljónir evra og þar af fara tæplega 350 þúsund evra eða um 56 milljónir króna til Háskólans á Hólum.
Bjarni segir verkefnið ganga út á að búa til samstarfsnet háskóla og menntaskóla sem bjóði upp á starfstengt nám í fiskeldi en einnig að tengja skólana við fiskeldisfyrirtæki. Að búa til sameiginlegar kröfur eða námsmarkmið og kortleggja það kennsluefni sem sé til staðar. Þá á að þróa kennsluefni og sérstök áhersla verður lögð á stafrænt efni.
Hann segir aukið samræmi auðvelda atvinnuþátttöku milli landa. „Menn sjá það að fiskeldi á heimsvísu hefur verið í örum vexti á síðustu áratugum á meðan veiðar hafa kannski staðið í stað eða minnkað. Þannig að ef við ætlum að auka fæðuframboð fyrir ört vaxandi heim þá er fiskeldi framtíðin hvað það varðar,“ segir hann.