Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Lögreglurannsókn á aðgerðum yfirvalda vegna COVID-19

16.10.2020 - 05:49
epa08747306 French Health Minister Olivier Veran wears a face mask during a press conference to present the details of new restrictions aimed at curbing the spread of the Covid-19 pandemic, announced on 14 October by the French president in Paris, 15 October 2020. France on October 14 became the latest European country to toughen anti-coronavirus measures, imposing a curfew in Paris and eight other cities from October 17.  EPA-EFE/LUDOVIC MARIN / POOL  MAXPPP OUT
Olivier Véran, heilbrigðisráðherra Frakka, mátti þola lögregluleit á heimili sínu og skrifstofu í gær, í tengslum við rannsókn á viðbrögðum franskra stjórnvalda við COVID-19 farsóttinni Mynd: EPA-EFE - AFP POOL
Lögregla í Frakklandi gerði í gær húsleit hjá nokkrum háttsettum stjórnmála- og embættismönnum, þar á meðal tveimur ráðherrum, í tengslum við rannsókn á viðbrögðum stjórnvalda við kórónaveirufaraldrinum. Forsætisráðherrann Jean Castex og forveri hans, Edouard Philippe, eru í hópi þeirra sem rannsókn lögreglu beinist að, og það er heilbrigðisráðherrann Olivier Véran líka.

Húsleit var gerð á hvoru tveggja heimili Vérans og skrifstofu. Einnig var leitað á heimili forvera hans, Agnesar Buzyn, sem og á heimili Jeróme Salomons, forstjóra heilbrigðisstofnunar Frakklands.

Brugðust seint og illa við

Í frétt France 24 segir að gagnrýnendur saki ríkisstjórn Emmanuels Macrons um að hafa dregið það allt of lengi að hefja víðtæka skimun fyrir kórónaveirunni og að hafa gert of lítið úr mikilvægi almennrar grímunotkunar í byrjun faraldursins, þegar svo lítið var til af grímum í landinu að þær voru nánast allar teknar frá fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Fjöldi formlegra kvartana kallaði á rannsókn

Í júlí ákvað svo sérdómstóll að hefja skyldi rannsókn á viðbrögðum og aðgerðum yfirvalda í faraldrinum, eftir að 90 formlegar kvartanir þar að lútandi höfðu borist frá COVID-19 sjúklingum, læknum, fangavörðum, lögreglumönnum og fleira framlínustarfsfólki. Flestar lutu kvartanirnar að skorti á andlitsgrímum og öðrum hlífðar- og öryggisbúnaði.

Yfir 33.500 dauðsföll

Yfir 33.500 hafa dáið úr COVID-19 í Frakklandi til þessa og rúmlega 850.000 smit verið staðfest. Faraldurinn hefur færst mjög í aukana síðustu vikur og á morgun, laugardag, tekur gildi nýjasta tilskipun franskra stjórnvalda sem ætlað er að hemja útbreiðslu veirunnar; strangt útgöngubann milli klukkan níu á kvöldin og sex á morgnana í níu stærstu borgum landsins.