Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Litla fólkið segir mér að ég svæfi þau á kvöldin“

Mynd: Hafdís Huld / Facebook

„Litla fólkið segir mér að ég svæfi þau á kvöldin“

16.10.2020 - 11:29

Höfundar

Mörg íslensk börn alast upp við að hlýða á rödd Hafdísar Huldar á hverju kvöldi og sofna ekki öðruvísi en við söng hennar. Plata hennar, Vögguvísur, hefur verið ein mest streymda íslenska platan á Spotify svo árum skiptir og ekkert lát er á vinsældunum.

Tónlistarkonan Hafdís Huld hóf söngferilinn árið 1995, aðeins fimmtán ára gömul, með hljómsveitinni GusGus og fyrir tvítugt hafði hún farið tvisvar í tónleikaferðalag um heiminn. Fyrsta sólóplata hennar, Dirty Paper Cup, var valin besta poppplata ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2006. Síðan hefur hún gefið út þrjár breiðskífur með eigin tónlist og eina ábreiðuskífu. Plötur hennar hafa fengið góðar viðtökur víða um heim, sérstaklega í Bretlandi, en allra vinsælasta plata Hafdísar er nokkuð frábrugðin hinum. Hún kom út 2012 og heitir Vögguvísur. Hún hefur heilt á litið verið ein mest spilaða plata landsins frá því að hún kom út. Hugmyndin að gerð plötunnar kviknaði þegar Hafdís gekk með eldra barnið sitt en hana óraði ekki fyrir vinsældunum sem hún myndi vekja.

Söng fyrir ófætt barnið sitt

„Ég varð ekki svona Hollywood-ólétt eins og ég hafði séð fyrir mér. Ég var með grindargliðnun og gat ekki ferðast mikið svo ég aflýsti öllum tónleikum frá því ég var komin um fjóra mánuði á leið,“ rifjar hún upp í samtali við Önnu Marsibil Clausen í Lestinni á Rás 1. Hún gat ekki hugsað sér að sitja auðum höndum þrátt fyrir heilsuleysið. Henni datt því í hug að taka upp vögguvísurnar sem hana langaði að syngja fyrir ófædda barnið sitt. Hún og maðurinn hennar fóru saman í stúdíó og tóku upp hugljúfar vögguvísur, íslenskar og enskar og nokkrar frumsamdar. „Ég hélt útgáfutónleika í Grasagarðinum fyrir fullt af litlum börnum þegar ég var komin átta mánuði á leið svo þetta var allt í svona mjúkum rólegum fíling,“ segir hún.

Hjónin voru á þessum tíma að gera upp hús í Mosfellsdal og búin að fá sér hænur sem vöppuðu um garðinn á meðan þau tóku upp vögguvísur á loftinu. Plötunni var strax vel tekið og hún kom sér vel fyrir í efstu sætum metsölulistans en Hafdís hélt áfram lagasmíðinni eftir barnsburðinn, fór að spila á tónleikum á ný og gerði næstu fullorðinsplötu. Það var ekki fyrr en Vögguvísur rötuðu á Spotify fjórum árum síðar og rauk þá á toppinn á vinsældalistum á ný.

Ómetanlegt þegar foreldrar og börn stoppa hana og þakka henni fyrir

Vel yfir 44 þúsund notendur hlusta á tónlist Hafdísar á Spotify í hverjum mánuði. Nær allar vögguvísurnar eru komnar yfir eina milljón spilana og Dvel ég í draumahöll er komin með yfir tvær. Og Hafdís er þakklát. „Mér þykir ótrúlega vænt um þessa plötu því ég gerði hana fyrir dóttur mína. Hún var gerð af heilum hug, ég ákvað að gera hana ljúfa og foreldravæna og ég gerði hana frá hjartanu,“ segir Hafdís. „Ég var ekki að selja neinum neitt.“ Hún segir ómetanlegt þegar börn og foreldrar stoppa hana og þakka henni fyrir plötuna. „Litla fólkið segir mér að ég svæfi þau á kvöldin og mömmurnar stoppa mig í sundi eða þegar ég kaupi í matinn.“

Hafdís segist ekki hafa farið í neina auglýsingaherferð fyrir plötuna sem skýrt geti látlausar vinsældir. „Mér þykir svo vænt um að foreldrar séu að benda öðrum foreldrum á hana. Maður getur ekki fengið betri meðmæli en það,“ segir hún. „Ég spila ekki hvað sem er fyrir börnin mín og því þykir mér gríðarlega vænt um að fólk treysti mér til að svæfa sín.“

Hver spilun hjálpar

Líkt og flestir tónlistarmenn hefur Hafdís þurft að hverfa frá plönum um ferðalög og tónleikahald síðustu mánuði og kemur sér þá vel að fá aur fyrir Spotify-streymið. „Ég er ekki að mala gull en í COVID-ástandi eins og núna hjálpar þetta óneitanlega. Það er þó held ég enginn að verða ríkur af Spotify-streymi en maður er ofsalega þakklátur fyrir hverja spilun því allt hjálpar,“ segir hún. Hún hefur ákveðið að nýta tímann í stúdíóinu og er að vinna í tveimur plötum, einni fullorðinsplötu og einni vísnaplötu fyrir skólakrakka.

Anna Marsibil Clausen ræddi við Hafdísi Huld í Lestinni á Rás 1.

Tengdar fréttir

Tónlist

Spilar, syngur og hugsar um börn og hænur

Tónlist

Hafdís Huld í Stúdíói 12