Könnunin náði til 1.700 listamanna. Sviðslistafólk, tónlistarmenn, fólk í kvikmyndagerð, ritlist og myndlist svöruðu spurningum í könnuninni auk tæknifólks.
Flest hefur tekjur af eigin starfi og launuðu starfi. Um helming heildartekna má rekja til sjálfstæðrar vinnu listafólksins og tekjufallið kemur að mestu til vegna afbókana eða uppsagna verktakasamninga.
Um helmingur fólksins hefur misst meira en 50% tekna sinna milli ára og um fimmtungur hefur orðið af 75-100% tekna. Meirihluti þeirra sem svaraði segir tekjur sínar ekki duga til að standa við fjárhagslegar skuldbindingar.
Samkvæmt könnunni er staðan sérstaklega slæm meðal sjálfstætt starfandi tónlistarmanna en allt að 85% þeirra sögðust ekki geta staðið við skuldbindingar sínar á næstunni.
Bótaúrræði stjórnvalda virðast illa nýtast og séu óaðgengileg listafólki. Ísland hefur ekki farið þá leið að styðja við bakið á listafólki með sértækum aðgerðum líkt og gert hefur verið í sumum ríkjum.
Um 60% sjálfstætt starfandi kváðust hafa fengið helming bóta greiddan eða verið synjað um umbeðin bótaúrræði. Þau virðist, að mati Efnahags- og framfarastofnunarinnar, ekki falla að samsettu formi tekjuöflunar, tekjusveiflum og óhefðbundnu rekstrarformi.