Framboð og eftirspurn

Mynd með færslu
 Mynd: KBE - Herra Hnetusmjör

Framboð og eftirspurn

16.10.2020 - 16:33

Höfundar

KBE kynnir: Erfingi krúnunnar er ný plata eftir Herra Hnetusmjör sem er plata vikunnar á Rás 2 að þessu sinni.

Senur virka svona: Þær eiga sér upphaf, einn listamaður hrindir hlutum af stað og aðrir svipað þenkjandi fylgja og finna sig í hóp. Það er stemning og stuðningur. Senur toppa síðan, mikið af útgáfum og sumar leka út í meginstrauminn (les: Þú getur talað við ömmu þína um senuna). En svo hníga þær til viðar. Alltaf. Seinni bylgja íslensks rapps er þar í engu undanskilin, ef svo væri, þyrfti að reikna aldagamalt lögmál upp á nýtt. Framboð og eftirspurn, svo sannarlega. Er seinni bylgjan að líða undir lok? Já, mér finnst það. Hins vegar eiga ákveðnir risar góða möguleika á talsverðu framhaldsslífi. Herra Hnetusmjör er einn af þeim.

Hann, Emmsjé Gauti og Jó Pé & Króli vita nefnilega lengra en nef þeirra nær. Ég giska á að þeir búi yfir bjargráðum sem leyfir þeim að lifa áfram sem listamenn þó að bylgjan koðni. Herra Hnetusmjör hefur þá aldrei dregið dul á að hann skilur betur en flestir að peningar eru órofa partur af þessum bransa. Hann flíkar því frjálslega að þeir keyri hann áfram en ég myndi ekki ganga svo langt að þeir séu eina ástæðan fyrir því að hann standi í þessu stappi. Hann er ekki svo einfaldur. Mammonsdýrkun hans, hvort sem hann er að stríða okkur aðeins eða meina það, fer í taugarnar á mörgum en ég fíla það vel hversu heiðarlegur hann er með þessa aðkomu sína.

En hey, ég á að vera að dæma plötu hérna, fyrst og síðast. Og hvað erum við með í höndunum í þetta sinnið? Ég hef verið ánægður með þetta poppvæna rapp Hnetusmjörsins, þetta sagði ég m.a. um Dögun: „Poppað, útvarpsvænt rapp sem reynir ekki að vera neitt annað en það sem það er. Feitt og bragðgott eins og Hnetusmjörslínan sem okkar maður lét framleiða fyrir sig.“ Þessi tiltekna plata er hins vegar meira eins og samtíningur og alls ekki eins sannfærandi. Upphafslagið, „Framboð og eftirspurn“ er þó giska öflugt, kynnir okkar mann vel inn og „Vitleysan eins“ er líka skemmtilegt. Ég dýrka líka þetta stöðuga „KópBois!“ ákall í lögunum, minnir mig á „Maybach Music“ stríðsöskur Rick Ross. „Deyfir mig“ er poppaðra og dampurinn dettur aðeins niður. Friðrik Dór syngur „Ég lofa þér því“ og áhugi þess sem skrifar fer dofnandi. „Fataskáp afturí“ er kjánalegt fylliefni á meðan „100 mismunandi vegu“ kemur okkur aftur inn á beinu brautina, rólegt og svalt. Og nokkurn veginn þannig rúllar platan, vel heppnaðar smíðar innan um lakari. Harðari smíðar fara Hnetusmjörinu vel, þessar poppuðu – og hér er tandurhreint popp á köflum – fara honum verr. Nefni það síðan sérstaklega að umslagið er einstaklega vel heppnað.

Held að þessi plata spili þó óverulegt hlutverk í áframhaldandi ferli Herra Hnetusmjörs. Hann spilar þann leik upp í topp og veit nákvæmlega hvað hann er að gera. Tölur tala nefnilega aldrei óskýrt.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Herra Hnetusmjör – Erfingi krúnunnar

Tónlist

Herra Hnetusmjör á 100 mismunandi vegu

Popptónlist

Herra Hnetusmjör bæjarlistamaður Kópavogs

Popptónlist

Herra Hnetusmjör, Gus Gus og Parakvartettinn með nýtt