Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fá 1200 milljónir frá ríkinu við sameiningu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ef Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarbær og Súðavík sameinast greiðir ríkið sameinuðu sveitarfélagi 1.2 milljarða króna. Formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar segir að það sé skylda sveitarstjórna á Vestfjörðum að vinna betur saman. Umtalsverðir fjármunir séu í húfi.

Mikið í húfi

Sveitarfélög sem sameinast  fá umtalsverða fjárhæð í styrk frá ríkinu til að greiða götu sameiningar. Samkvæmt reglunum fylgja 600 milljónir Ísafjarðarbæ, 465 milljónir Bolungarvíkurkaupstað og 110 Súðavíkurhreppi.

1200 milljónir í boði

Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar, segir mikilvægt að málið verði skoðað af alvöru. „Ég er í sjálfu sér bara að vekja athygli á því að það er búið að semja reglur sem að segja að ef þessi þrjú sveitarfélog sameinast eru 1200 milljónir í boði frá ríkissjóði til að styðja við sameininguna og mér finnst það skylda okkar bæjarfulltrúa og íbúa hérna að kanna hvort það sé ekki tilefni til að vinna betur saman og sameinast. Fá þessa peninga sem við fáum ella ekki,“ segir Daníel.

Hvernig finnst þér hljóðið vera í íbúum og sveitarstjórnarfólki varðandi þessar pælingar?

„Ég held að í minni byggðunum óttist fólk að sameinast stærri sveitarfélögum og það er alveg skiljanlegt og að fólk óttist að þetta verði yfirtaka. Þess vegna held ég að verkefnið sé í raun og veru að búa þannig um hnútana að kanna hvort það sé vilji fyrir þessu og hvernig megi koma til móts við minni byggðakjarna þannig að þeir upplifi þetta ekki sem yfirtöku."