Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Brýnt að leysa hratt úr lögbannsmálum gegn fjölmiðlum

Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Lögbann á fjölmiðlaumfjöllun felur fyrir fram í sér takmörkun á tjáningarfrelsi. Þetta kom fram í máli Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra þegar hún mælti á mánudag fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um kyrrsetningu og lögbann.

Því þurfi að styrkja tjáningarfrelsið með því að bæta umgjörð lögbannsmála á hendur fjölmiðlum.

Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi en var ekki afgreitt úr allsherjar- og menntamálanefnd. Því er það lagt fram óbreytt nú.

Dómsmálaráðherra áréttaði þá miklu þýðingu sem fjölmiðlar hafi fyrir lýðræðislega umfjöllun og því sé mikilvægt að leyst sé úr lögbannsmálum á hendur þeim skjótt og greiðlega.

Nái frumvarpið fram að ganga verður málsmeðferð í lögbannsmálum gegn fjölmiðlum því flýtt sem kostur er án þess þó að tefla réttindum gerðarbeiðenda eða gerðarþola í tvísýnu. Þeirri málsmeðferð sem nú tíðkast við bráðabirgðagerðir af því tagi sem lögbann er megi ekki stefna í hættu.

Mat dómsmálaráðherra er að til takmörkunar á tjáningarfrelsi, á borð við lögbann á umfjöllun fjölmiðla, þurfi að gera sérstaklega ríkar kröfur samkvæmt stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.

Í máli ráðherra kom fram að þar reyni annars vegar á mörk tjáningarfrelsis og hins vegar friðhelgi einkalífs. Lögbann á fjölmiðlaumfjöllun geti komið í veg fyrir lýðræðislega umræðu þegar tjáning um málefni sem varða almenning séu fyrir fram takmörkuð, til að mynda í aðdraganda kosninga. Tjón af því tagi verði varla metið til fjár og vandséð hver ætti kröfu um greiðslu bóta.