Allir í Oddeyrarskóla á Akureyri í sóttkví

16.10.2020 - 11:21
Oddeyrarskóli á Akureyri
 Mynd: Aðsend mynd
Nemandi á miðstigi í Oddeyrarskóla á Akureyri er smitaður af COVID-19. Starfsfólk og nemendur eru komnir í varnarsóttkví þar til nánari fyrirmæli frá rakningarteymi liggja fyrir.

Jákvæð niðurstaða lá fyrir í morgun eftir að skólinn byrjaði en nemandinn var síðast í skólanum á miðvikudag. Karl Frímannsson, sviðsstjóri fræðslusviðs hjá Akureyrarbæ segir hefðbundið ferli hafa farið í gang þegar niðurstaðan lá fyrir. Skólastjóri hafi sett sig í samband við almannavarnir og neyðarteymi verið ræst. Það sé ekkert annað í stöðunni en að halda ró sinni og sýna samstöðu. 

Nú sé verið að ná sambandi við foreldra og fara yfir stöðu mála. Hann segir nemendur og starfsfólk komið í varnarsóttkví þar til frekari fyrirmæli berist frá sóttvarnaryfirvöldum. Þegar sé búið að gefa út að það verði enginn skóli á mánudag og það sé lán í óláni að það hafi átt að vera eini skóladagurinn í næstu viku. Restin af vikunni fari í foreldraviðtöl og vetrarfrí.

 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi