Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Verkfall hefst að óbreyttu á morgun

15.10.2020 - 12:43
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist Jónsson - RÚV
Verkfall um 400 starfsmanna álversins í Straumsvík hefst að óbreyttu á morgun. Formaður Hlífar segir samningafundi síðustu vikna ekki hafa borið árangur og að þungt hljóð sé starfsfólki álversins.

Félagsmenn í fimm af sex stéttarfélögum hjá Rio Tinto samþykktu verkfallsboðun með miklum meirihluta í síðustu viku. Að óbreyttu hefst skæruverkfall á morgun og ótímabundið allsherjarverkfall 1. desember.

Samningar félaganna hafa verið lausir síðan í byrjun júlí, en samið hafði verið um launahækkun í mars með þeim fyrirvara að Rio Tinto næði nýjum raforkusamningum við Landsvirkjun fyrir lok júní. Þegar það tókst ekki féllu samningarnir úr gildi og var deilunni vísað til ríkissáttasemjara. Rio Tinto hefur lengi verið ósátt við raforkuverðið sem Ísal greiðir Landsvirkjun og hafa stjórnendur fyrirtækisins sagt að jafnvel komi til greina að loka álverinu varanlega.

Fundað var hjá ríkissáttasemjara í gær en Kolbeinn Gunnarsson, formaður Hlífar, segir að síðustu fundir þar hafi ekki borið árangur. Þó sé enn verið að ræða saman.

„Við erum að funda núna í trúnaðarráði starfsmanna þar sem við erum að fara yfir stöðu mála og vega og meta stöðuna en eins og var kosið um var því stillt þannig upp að aðgerðir eiga að hefjast á morgun um hádegi,“ segir hann.

Stjórnendur álversins funda núna vegna stöðunnar og gáfu ekki kost á viðtali. Kolbeinn segir þungt hljóð í starfsmönnum.

„Starfsmennirnir eru mjög þreyttir og vilja fá eitthvað fram. Þess vegna samþykktu menn það með miklum meirihluta að fara í aðgerðir. Það er ástæðan fyrir því að við erum á þessum stað núna. Menn eru orðnir langþreyttir á að fá inn lífskjarasamninginn,“ segir hann.