Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Væri afarkostur að skerða þjónustu Strætós

15.10.2020 - 06:24
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Stjórnendur og eigendur Strætós funda þessa dagana um fjárhagsáætlun næsta árs. Fyrirtækið hefur orðið fyrir töluverðu tekjutapi vegna COVID-19 faraldursins og er nú unnið að viðbrögðum, segir Hjálmar Sveinsson, stjórnarformaður Strætós.

„Vandinn er mikill. Það er engin launung á því,“ segir Hjálmar. „Það hefur orðið algjört tekjufall hjá Strætó. Vonir um að allt myndi komast í samt lag aftur brugðust. Þegar skólarnir byrja á haustin þá er alltaf mjög mikilvægur tími fyrir Strætó. Það eru margir sem kaupa sér kort. Það brást. Það er ljóst að tekjufallið er mikið og það hleypur auðvitað á milljónum, tugum milljóna, hundruðum milljóna jafnvel.“

Stjórn Strætós hittist á fundi á föstudag og eigendafundir voru haldnir á föstudag og mánudag. Meðal þess sem er til umræðu er hugsanleg aðkoma sveitarfélaganna sem eiga Strætó og ríkisins að málinu. 

Ekið var samkvæmt laugardagsáætlun um skeið í vor til að mæta tekjutapi og minnkandi eftirspurn. Næturakstur um helgar hefur legið niðri síðustu mánuði. Hjálmar segir að hagræðingaraðgerðir séu til skoðunar en það væri afarkostur að þurfa að skera þjónustuna mikið niður, nokkuð sem gæti tekið langan tíma að vinna upp. „Þjónustan í megindráttum, það er mjög mikilvægt að halda henni gangandi.“