Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þórólfur: Verra en í vor

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Áttatíuogeinn greindist með kórónuveirusmit í gær og voru langflestir þeirra í sóttkví. Nú eru 1.170 manns með smit og 3.035 í sóttkví. Sóttvarnalæknir segir að lengri tíma taki að ná kúrfuinni niður en í vor því veiran hafi dreift sér víðar. 

Met á landamærunum

Met var sett í skimun á landamærum í gær því 18 greindust með kórónuveiruna. Áður hafa mest mælst níu á einum degi. Verið að mæla hvort smitin eru virk. Stór hópur sem búsettur er hér mun hafa verið að koma til landsins. 

Minnisblaðið - tvær til þrjár vikur til viðbótar

Sóttvarnalæknir sendi ráðherra minnisblað í morgun. Hann vill ekki greina frá innihaldinu. Segir ýmis tilmæli skýrð betur og að ekki sé rúm fyrir tilslakanir og leggur til áframhaldandi aðgerðir í tvær til þrjár vikur. Ríkisstjórnin tekur minnisblaðið væntanlega fyrir á ríkisstjórnarfundi í fyrramálið. Núverandi aðgerðir falla úr gildi á mánudaginn. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Geir Ólafsson - RÚV
Fyrsta og þriðja bylgja lagðar saman.

Á þessu línuriti táknar rauða línan fyrstu kórónuveirubylgjuna og sú bláa þá þriðju sem nú stendur yfir. Þær sýna fjölda þeirra sem eru smitaðir hvern dag. Upplýsingarnar eru af covid.is. Þriðja bylgjan fer ekki upp eins hratt og sú fyrsta en kannski má segja að það virðist aðeins meiri skriðþungi í henni. 

Erfiðara að ná utan um veiruna en í fyrstu bylgju

„Ég held að það muni taka okkur lengri tíma að sjá kúrfuna fara niður núna heldur en í vor,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

„Og ég held að það séu kannski minni vonir um það að við náum að útrýma veirunni eins og við gerðum í vor. Ég byggi það bara á því að það hefur reynst erfðara að ná utan um veiruna núna. Hún er búin að dreifa sér víðar. Og ég held að þetta verði erfiðara verkefni og ég held að við þurfum að vera við því búin. En ég er nokkuð viss um að það hægar en í vetur.“

Það sem þó er betra núna að minnsta kosti enn sem komið er, er að færri hafa veikst alvarlega og færri lagst á gjörgæslu. 

Enn óvíst hvernig verður um jólin

Eðlilega hugsar fólk til næstu stóru tímamóta, það er jóla og áramóta, og veltir fyrir sér hvort hömlur verði miklar þá. Þórólfur segir engu hægt að spá um það fyrr en kúrfan byrjar að fara niður. 

Minna af veirunni þegar faraldur var í rénun

Í fyrstu bylgjunni var hægt að sjá þegar dró úr henni með því að skoða hvað mikið af veirunni kom fram í sýnum. Þegar dró úr magninu var það forboði um betri tíð. Þeir sem greinast núna eru með töluvert mikið af veirunni í sér, segir Þórólfur, og eftir sé að koma í ljós hvort þetta verði eins og í þeirri fyrstu. 

Varar við úða sem ekki er búið að rannsaka í fólki

Fyrirtækið Kerecis hefur þróað nef- og munnúða gegn COVID-19 eins og sagt var frá í sjónvarpsfréttum í gær. Hann á að fækka veirum í efri öndunarfærum. 

„Ég hef miklar áhyggjur af því að það sé verið að markaðssetja og auglýsa einhvern úða sem ekkert búið að rannsaka í fólki. Og gefa þannig fólki von um að það sé einhver lækning eða forvörn gegn þessari veiru.“