Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stuðningur við sjálfstæði Skotlands eykst enn

epa05856899 Scotland's First Minister and the leader of the Scottish National Party, Nicola Sturgeon, addresses the audience at the Scottish National Party Spring Conference in the Aberdeen Exhibition and Conference Centre (AECC) in Aberdeen,
Nicola Sturgeon forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar. Mynd: EPA
Stuðningur við að Skotland segi sig úr lögum við Stóra-Bretland og gerist sjálfstætt ríki hefur aldrei mælst meiri meðal skoskra kjósenda en nú, samkvæmt nýjustu skoðanakönnun fyrirtækisins Ipsos Mori. Í henni sögðust 58 prósent þeirra sem afstöðu tóku fylgjandi sjálfstæði Skotlands, en 42 prósent vildu halda í óbreytta stöðu landsins innan Bretaveldis.

 

Mikill stuðningur við Sturgeon og Skoska þjóðarflokkinn

Könnunin sýnir jafnframt mikinn stuðning við Skoska þjóðarflokkinn og enn frekar við leiðtoga flokksins og skosku heimastjórnarinnar, Nicolu Sturgeon. 72 prósent aðspurðra sögðust ánægð með störf Sturgeon, sem hefur hlotið mikið lof landa sinna fyrir framgöngu hennar og skosku stjórnarinnar í öllu er lýtur að COVID-19 og viðbrögðum við þeim vágesti.

Kosið til Skotlandsþings í maí 2021

Í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2014 greiddu 55 prósent kjósenda í Skotlandi atkvæði gegn sjálfstæði en 45 prósent með því. Sturgeon hefur lýst því yfir að hún muni beita sér fyrir annarri atkvæðagreiðslu um sjálfstæði, hljóti hún og Skoski þjóðarflokkurinn umboð kjósenda til þess þegar kosið verður til Skotlandsþings í vor.

Niðurstöður þessarar skoðanakönnunar benda óneitanlega til þess að það umboð verði auðsótt. Þar með er þó björninn ekki unninn, því Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur ítrekað lýst því yfir að ekki komi til greina að heimila aðra þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstætt Skotland.