Segja Þorgrím hafa brotið sóttvarnareglur

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Segja Þorgrím hafa brotið sóttvarnareglur

15.10.2020 - 08:49
Í forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag er sagt frá því að Þorgrímur Þráinsson, sem er í liðsstjórn íslenska karlalandsliðsins í fótbolta, hafi brotið sóttvarnarreglur UEFA, Evrópska knattspyrnusambandsins eftir 2-1 sigur Íslands á Rúmeníu síðasta fimmtudag. Þorgrímur er nú smitaður af COVID-19.

Fréttablaðið segir að reglur UEFA kveði á um að starfsmenn sem ekki eru skráðir á leikskýrslu hafi ekki heimild til að fara inn á leikvöllinn. Þá mega leikmenn og starfslið liða ekki faðmast samkvæmt reglum sem bæði UEFA og KSÍ vinna eftir vegna sóttvarnaráðstafana. Þorgrímur fór engu að síður inn á völlinn í leikslok eftir Rúmeníuleikinn og faðmaði þar leikmenn.

Þorgrímur var raunar ekki sá eini utan leikskýrslu sem fór inn á völlinn eftir leik. Samkvæmt umfjöllun Fréttablaðsins fór Magnús Gylfason, sem á sæti í landsliðsnefnd, einnig inn á völlinn í fagnaðarlátunum eftir Rúmeníuleikinn.

Engir leikmenn íslenska landsliðsins þurftu að fara í sóttkví eftir að smitið greindist í Þorgrími í fyrradag. Allt starfslið íslenska liðsins þurfti þess þó. Allir leikmenn voru skimaðir á ný í gær og reyndust öll sýnin neikvæð.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Belgar á toppinn eftir sigur í Laugardalnum

Fótbolti

Öll próf leikmanna Íslands neikvæð

Fótbolti

Mennirnir sem stýra landsliðinu í kvöld

Fótbolti

Allt starfslið karlalandsliðsins í sóttkví vegna smits