Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Nýtt frá Lay Low og unga fólkinu

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV

Nýtt frá Lay Low og unga fólkinu

15.10.2020 - 15:00

Höfundar

Nýja stjórnarskráin, sem hefur töluvert verið í fréttum vikunnar, er ofarlega í huga Lay Low sem syngur part af henni í Undiröldu kvöldsins sem fer að mestum hluta í listafólk sem er að stíga sín fyrstu skref í bransanum þrátt fyrir að vera kannski ekki öll byrjendur.

Lay Low - Aðfaraorð

Aðfaraorð er nýtt lag frá Lay Low sem er partur af verkefninu Í leit að töfrum sem fór fram nýlega í Hafnarhúsinu. Í verkinu flytja og semja tónlistarmenn tónlist við einstakar greinar Nýju stjórnarskrárinnar eins og hún er kölluð í tónlistarformi og partur Lovísu heitir Aðfaraorð.


Kísleifs - Perú!

Kári Ísleifsson starfar undir listamannsnafninu Kisleifs og hefur gefið út lagið Perú! sem er tilraunakenndur indí-grautur. Áður hefur hann gefið út plötuna Grafín á streymisveitum.


Halldór Warén - Departure

Halldór Warén hefur sent frá lagið Departure af væntanlegri plötu sem heitir Without Sadness is no Happiness. Áður hefur Halldór sent frá sér vögguvísuplötuna Bíum Bíum sem kom út á árinu 2008.


Ultraflex - Full of Lust

Norræna popp-samvinnuverkefni hinnar íslensku Special K (Katrínar Helgu Andrésdóttur) og hinnar nosku Farao (Kari Kamrud Jansen) heldur áfram að ryðja frá sér danssmellunum og í nýja laginu Full of Lust gefa þær sig lostanum á vald.


Breki Gunnarsson - Ferðin heim

Tónlistarmaðurinn Breki Gunnarsson hefur sent frá sér þröngskífuna Electronica sem inniheldur raftónlistrarlagið Ferðin heim en fyrr á árinu sendi hann frá sér plötuna Physical Waves sem er eins og Electronica aðgengileg á tónlistarveitum.


The PPBB - Ooh I am Blue

Hljómsveitin The Post Performance Blues Band er skipuð Hrefnu Lind Lárusdóttur, Álfrúnu Örnólfsdóttur, Sögu Sigurðardóttur og Pétri Eggertssyni. Þau hafa sent frá sér lagið Ooh I Am Blue en textinn er eftir Hrefnu Lind en lagið er eftir Byssukisa. Sveitin segist sérhæfð í að umbreyta leiðindum í gleði og er með kvikmynd um sig í vinnslu sem áætlað er að frumsýna seinnipart árs 2021.


Holdgervlar - Skýjagljúfur

Hljómsveitin Holdgervlar gaf nýlega út þröngskífuna Gervihold þar sem þau velta fyrir sér samruna manns og vélar en Lagið Skýjgljúfur er að finna á henni ásamt fimm öðrum.