Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Neyðarlög sett í Taílandi vegna mótmæla

15.10.2020 - 01:38
Erlent · Asía · Taíland · Stjórnmál
epa08743860 Thai protesters march at the Democracy monument during an anti-government protest in Bangkok, Thailand, 14 October 2020. Pro-democracy protesters take part in a rally against the royalist elite and the military-backed government calling for the resignation of Thai Prime Minister Prayut Chan-o-cha, the new charter rewrite and the monarchy reformed to be under the constitution.  EPA-EFE/DIEGO AZUBEL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Stjórnvöld í Taílandi lýstu í kvöld yfir neyðarástandi og tilkynntu að einungis fimm eða færri megi koma saman á einum stað þar til annað verður ákveðið. Ólíkt því sem gerist víða annars staðar þessa dagana, þá er ekki gripið til þessara róttæku aðgerða til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar og COVID-19, heldur til að freista þess að stöðva „ólögleg mótmæli" í höfuðborginni Bangkok og draga tennurnar úr lýðræðisöflum í landinu.

Brýnt að „tryggja frið og spekt“

Í tilkynningu lögreglu, sem flutt var í sjónvarpi, var sagt að „margir hópar fólks hefðu boðað, hvatt til og haldið ólögmætar, opinberar samkomur í Bangkok," sem væru til þess fallnar að skapa óreiðu og ólgu meðal almennings. Því væri brýnt að grípa til róttækra aðgerða, til að „tryggja frið og spekt."

Fjölmiðlum settar skorður

Neyðarlögin tóku gildi klukkan fjögur í nótt að staðartíma. Auk samkomubannsins kveða lögin á bann við „dreifingu frétta og annars efnis sem er til þess fallið að vekja ótta eða afbakar upplýsingar að yfirlögðu ráði og veldur misskilningi sem skaðar þjóðaröryggi, frið og almenna reglu.“ Gildir þetta jafnt um fjölmiðla sem einstaklinga.

Ungt fólk leiðir mótmælin

Efnt hefur verið til fjölda fjöldamótmæla í Bangkok síðustu vikur, þar sem mótmælendur kalla eftir afsögn forsætisráðherrans og ríkisstjórnarinnar, sem stjórnar í skjóli hersins. Þá krefjast þeir gagngerra umbóta á stjórnarskrá landsins og að valdi konungsins verði settar einhverjar skorður.

epa08742913 A protester looks on during an anti-government protest at the democracy monument in Bangkok, Thailand, 14 October 2020. Pro-democracy protesters take part in a rally against the royalist elite and the military-backed government calling for the resignation of Thai Prime Minister Prayut Chan-o-cha, the rewrite of the new charter the monarchy reformed under the constitution.  EPA-EFE/DIEGO AZUBEL
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Ungt fólk er áberandi í hópi mótmælenda, sem krefjast aukins lýðræðis og takmarkana á vald konungsins

 

Taílandskonungur er nánast í guðatölu í lögum landsins og huga mikils hluta landsmanna, einkum þeirra sem eldri eru.  Ungt fólk er hins vegar fjölmennt og áberandi í hópi mótmælenda, sem flykkst hafa í miðborg Bangkok þúsundum saman, helgi eftir helgi og líka í miðri viku.

Næstliðinn laugardag taldist lögreglu til að um 18.000 manns hefðu tekið þátt í mótmælunum í höfuðborginni, en skipuleggjendur telja mótmælendur hafa verið minnst tvöfalt fleiri. Þá tóku þúsundir þátt í mótmælum gærdagsins. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV