Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Metfjöldi smita í Þýskalandi síðasta sólarhring

15.10.2020 - 04:33
epa08743019 German Interior Minister Horst Seehofer (R) and Chancellor Angela Merkel (C) attend during the weekly German Cabinet meeting in Berlin, Germany, 14 October 2020.  EPA-EFE/HENNING SCHACHT / POOL
 Mynd: EPA-EFE - ACTION PRESS POOL
6.638 kórónaveirusmit voru staðfest í Þýskalandi í gær, fleiri en nokkru sinni hafa greinst á einum sólarhring þar í landi frá upphafi faraldursins. Þetta kemur fram í tilkynningu Koch-rannsóknastofnunarinnar, sem fylgist grannt með gangi farsóttarinnar í Þýskalandi. Fyrra met, 6.554 staðfest smit, er frá 2. apríl. Við samanburðinn er þó rétt að hafa í huga að mun fleiri sýni eru tekin nú en þá var gert.

Samkomulag um hertar sóttvarnaaðgerðir

Tilkynning Koch-rannsóknarstofnunarinnar barst nokkrum klukkustundum eftir fund Angelu Merkel, kanslara, með leiðtogum allra 16 sambandsríkja Þýskalands, þar sem hertar sóttvarnaaðgerðir vegna faraldursins voru til umræðu. Á fundinum náðist samkomulag um eins konar svæðaskipt stigakerfi, sem kveður á um misharðar aðgerðir og takmarkanir í takt við nýgengi smita á hverju svæði.