Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Farsóttin ágerist, beðið eftir bóluefni

Mynd: EPA-EFE / EPA
Nærri 1,1 milljón manna hefur nú látist í kórónuveirufarsóttinni um heim allan. Víðast er faraldurinn í örum vexti og alls óvíst hvenær eða hvort bóluefni gegn veirunni verður tiltækt. Flest hafa látist í Bandaríkjunum, tæplega 220 þúsund, rúmlega 150 þúsund í Brasilíu og 111 þúsund á Indlandi. Í Evrópu hafa flestir látist í Bretlandi, rúmlega 43 þúsund, og rúmlega 36 þúsund á Ítalíu. Þessar tölur eru allar frá John Hopkins háskólanum í Bandaríkjunum.

Hröð útbreiðsla í Bandaríkjunum

Kórónuveiran breiðist hratt út mörgum ríkjum Bandaríkjanna og hafa yfirvöld margra ríkja áhyggjur af að gjörgæsludeildir séu að fyllast. Gary Herbert ríkisstjóri Utah, segir að ástandið hafi aldrei verið verra í farsóttinni.

Varað við of mikilli bjartsýni um bóluefni

Margir vara við of mikilli bjartsýni um hvenær eða hvort bóluefni gegn veirunni verði tilbúið. Donald Trump, forseti, hefur þrýst mjög á lyfjafyrirtæki og lyfjaeftirlitið að koma bóluefni á markað sem fyrst.

Lyfjafyrirtæki gæta fyllsta öryggis

David Ricks, forstjóri lyfjaframleiðandans Eli Lilly, segir í viðtali við NBC fréttastofuna, að allt kapp sé lagt á að hraða vinnunni. Ricks segir að þó að þrýst sé á að vinnan gangi hratt fyrir sig sleppi fyrirtækið engu í þróuninni. Fyllsta öryggis verður gætt segir Ricks.

Bill Gates segir haustið verða erfitt

Bill Gates, stofnandi Microsoft, sem hefur gefið mjög mikið fé til rannsókna á bóluefni, segir að það verði ekki tilbúið á þessu ári. Haustið verði erfitt, því fyrr sem fólk geri sér grein fyrir því því betra.