Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Covid-19, tóbakið og umhverfismálin

15.10.2020 - 17:00
Mynd: EPA / EPA
Ráð vísindamanna eru orðin fastur liður í pólitískri umræðu í Bretlandi um veiruaðgerðir. Nú þegar ríkisstjórn Borisar Johnson sætir ámæli fyrir að fylgja ekki ráðum eigin sérfræðinga um skammtíma allsherjarlokun heyrist líka að sérfræðingar séu ekki sammála um hvað gera skuli. Sumir telja að þau rök bergmáli umræðu fyrri áratuga um óhollustu tóbaks og loftslagsáhrif af mannavöldum.

Ráðum hverra á að fylgja í Covid-19 efnum?

Það var engin óskastaða, sem stjórnmálamenn víða um heim stóðu frammi fyrir í vor: að segja fólki að vera heima, fara ekki í vinnuna, börnum að fara ekki í skólann, loka og slökkva á sem flestum vinnustöðum, allt til að hefta útbreiðslu nýrrar veiru sem ógnaði heimsbyggðinni.

Nú standa mörg lönd frammi fyrir svipuðum aðstæðum: veirutilfellum fjölgar ört. Hvað er nú til bragðs? Og ekki síst, ráðum hverra á að fylgja? Framan af hamraði Boris Johnson forsætisráðherra Breta á því að stjórnin færi í einu og öllu að veiruráðum vísindamanna. En nei, nú hefur annað komið í ljós. 

Vísindamenn ráðleggja skammtímalokanir í fimm ráðum

Nýlega var birt fundargerð vísindaráðs sem ráðleggur stjórninni um Covid-aðgerðir. Á fundi ráðsins 21. september samþykktu 27 vísindamenn að ráðleggja skammtímalokun, að allir sem gætu ynnu að heiman, bann við samgangi milli heimila, lokun allra vertshúsa, íþróttahúsa og einstaklingsþjónustu eins og hárgreiðslu- og nuddstofa og háskólakennsla yrði sem mest á netinu. Samfara þessu yrði að grípa til sérstakra efnahagsráðstafana. 

Hugmyndin var að bæta vikufríi við fast viku-skólafrí nú í október. Vísindamennirnir hnykktu á að engin ein ráðstöfun dygði, þar af þessi fimm ráð.

Ríkisstjórnin valdi eitt ráð, það einfaldasta

Ríkisstjórnin fylgdi hins vegar aðeins einu ráðinu, því einfaldasta, hvatti fólk til að vinna að heiman. Það var ekki fyrr en fundargerðin var birt óvænt nú í vikunni að ljóst var að  ríkisstjórnin fylgdi ekki ráðum vísindaráðgjafa sinna heldur kokkaði upp eigin leiðir: þriggja stiga kerfi utan um staðbundnar aðgerðir. Nú verða svo staðbundnar aðgerðir enn hertar, til dæmis í London og Manchester.

Norður-Írland velur skammtímalokun

Norður-Írland hefur nú ákveðið að fylgja þessum ráðum vísindamannanna um allsherjar skammtímalokun. Haustfrí skólanna verður tvær vikur, annars flestu lokað í fjórar vikur. Keir Starmer leiðtogi Verkamannaflokksins hvetur nú til þess sama um allt Bretland, staðbundnar aðgerðir dugi ekki.

Bryddað upp á boðskap um óeiningu vísindamanna 

Fundargerðin hefur ýtt undir pólitískar vangaveltur um hvort stjórnin fylgi enn ráðum eigin vísindaráðgjafa. Í viðtali í vikunni var Robert Jenrick húsnæðis- og sveitastjórnaráðherra spurður út í þetta með ráð vísindamannanna.

Sumir segja að stjórnin gangi of langt, aðrir að ekki sé nóg að gert. Sama með ráð vísindamanna, sumir telja að meira þurfi að gera, sagði Jenrick. – Boðskapurinn var: vísindamenn eru ósammála.

Ráð vísindamanna rædd í þinginu

Bergmál sömu umræðu heyrðist í vikulegum þingfyrirspurnartíma forsætisráðherra. Starmer leiðtogi Verkamannaflokksins endurtók tillögu sína um skammtímalokun og hnykkti á að hann myndi ekki eftir einum einasta vísindamanni sem styddi nýjustu aðgerð ríkisstjórnarinnar, þetta þriggja stiga kerfi, til að lækka margföldunarstuðul veirusmita, svokallaðan R-stuðul. 

Fáar raddir andspænis samstilltum kór fjölda vísindamanna

Það eru vissulega vísindamenn sem ekki mega heyra minnst á lokanir. En þrátt fyrir stakar raddir er mikill meirihluti sérfræðinga á því að einhvers konar lokanir séu haldbesta úrræðið. Þær drepi ekki veiruna en hægi á smitum og hindri að heilbrigðiskerfið kikni undan veirunni. 

Bergmál umræðna fyrri áratuga um tóbak og umhverfismál

Í Bandaríkjunum hafa þessar stöku raddir einnig myndað einhvers konar samtök. Allt það minnir á hvernig tóbaksfyrirtækin vörðu hagsmuni sína þegar farið var að benda á skaðsemi tóbaks. Bæði sérfræðingar og samtök, sem virtust sjálfstæð og óháð, voru í raun á mála hjá tóbaksfyrirtækjum. Sama hefur gerst í umhverfismálum. Hagsmunir stórfyrirtækja virtust oft brýnni en almannaheill.

Sérhver kreppa elur af sér ófaglærða sérfræðinga

Og svo eru það auðvitað ófaglærðu sérfræðingarnar, sem spretta upp í sérhverri kreppu. Þeir voru ekki svo fáir ófaglærðu hagfræðingarnir, sem vissu nákvæmlega hvernig átti að bregðast við fjármálakreppunni, sem einu sinni var. Eða næstum sérfræðingar. Er til dæmis skoðun hjartaskurðlæknis á veirufaraldrinum jafngild skoðun farsóttarfræðings, bara af því báðir eru læknir? Þeirri spurningu mætti kannski svara með annarri spurningu: væri mönnum sama hvort hjartaskurðlæknir eða farsóttarfræðingur, báðir læknar, græddi í þá nýjar hjartalokur?

Allir geta haft sínar skoðanir – en sumar skoðanir hafa meira vægi en aðrar

Í lýðræðisþjóðfélagi mega sem betur fer allir viðra skoðanir sínar að vild. En þegar kemur að aðgerðum sem varða líf og dauða má rökstyðja að skoðanir þeirra sem í raun hafa vit á hlutunum vegi þyngra en hinna sem vita minna, sama hvað menn atast á samfélagsmiðlunum.

 

 

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir