Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Armenía: „Umtalsvert mannfall“ í átökunum við Asera

15.10.2020 - 02:25
A tail of a multiple rocket 'Smerch' sticks out near the town of Martuni, the separatist region of Nagorno-Karabakh, Wednesday, Oct. 14, 2020. The conflict between Armenia and Azerbaijan is escalating, with both sides exchanging accusations and claims of attacks over the separatist territory of Nagorno-Karabakh. Heavy fighting is in a third week despite a cease-fire deal. (AP Photo)
 Mynd: AP
Forsætisráðherra Armeníu sagði í sjónvarpsávarpi í gær, að umtalsvert mannfall hefði orðið í armenska hernum í átökunum við Asera síðustu vikur, þar sem tekist er á um yfirráðin í hinu umdeilda fjallahéraði, Nagorno-Karabakh. Forsætisráðherrann, Nikol Pashinyan, ávarpaði þjóðina í gærkvöld og sagði að „margir Armenar" hefðu fallið í átökunum, sem staðið hafa linnulítið frá 27. september.

„Ég lýt höfði og hneigi mig fyrir öllum fórnarlömbum okkar, píslarvottum, fjölskyldum þeirra, foreldrum og sérstaklega mæðrum þeirra, og lít á þeirra missi sem minn missi, minn persónulega missi," sagði forsætisráðherrann. Hann fullyrti þó að þrátt fyrir „manntjón og eyðileggingu hergagna" þá réði armenski herinn enn lögum og lofum víðast hvar í Nagorno-Karabakh, og hefði „valdið miklu mannfalli og eyðileggingu búnaðar hjá óvininum."

Lagði hann áherslu á að ávarp hans væri ekki sett fram í örvæntingu, heldur vildi hann einfaldlega greina frá stöðu mála, enda bæri honum skylda til að upplýsa þjóðina um sannleikann. 

People look at the destroyed houses a day after shelling by Armenian's artillery during fighting over the separatist region of Nagorno-Karabakh, in Ganja, Azerbaijan, Monday, Oct. 12, 2020. Armenia and Azerbaijan on Monday have accused each other of attacks over the separatist territory of Nagorno-Karabakh despite a cease-fire deal brokered by Russia in an effort to end the worst outbreak of hostilities in decades. (AP Photo)
 Mynd: AP
Báðir stríðsaðilar saka hinn um að gera ekki greinarmun á hernaðarskotmörkum og íbúðabyggð. Þessi mynd er frá borginni Ganja í Aserbaísjan, þar sem sprengjum Armena hefur rignt niður síðustu vikur með skelfilegum afleiðingum.

Hundruð hafa fallið í báðum löndum

Pashinyan nefndi engar tölur, og fór heldur ekki yfir það, hverus margir óbreyttir borgarar væru á meðal hinna föllnu. Ljóst þykir að hundruð hafa fallið, beggja vegna landamæranna, og báðir stríðsaðilar hafa sakað hinn um að greina ekki milli hernaðarskotmarka og íbúðabyggða í árásum sínum. Allar tilraunir til að miðla málum hafa reynst árangurslausar og vopnahlé sem samið var um í síðustu viku fyrir milligöngu Rússa var ekki fyrr gengið í gildi en sprengjum tók að rigna á ný.