Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tvær stórar hópsýkingar í þriðju bylgju faraldursins

14.10.2020 - 19:07
Mynd: Scott Webb / Pexels
Á fimmta hundrað smita eru rakin beint til tveggja hópsýkinga á höfuðborgarsvæðinu. Meira en fimmtán hundruð hafa veikst í þriðju bylgju faraldursins. Flestir smitast af sínum nánustu og lítið er um tilviljanakennd smit. Þetta segir yfirmaður smitrakningarteymis Almannavarna.

Langflest smit á höfuðborgarsvæðinu

Í þriðju bylgju faraldursins, sem hófst fyrir mánuði, hafa meira en fimmtán hundruð greinst með veiruna. Smitin hafa nánast eingöngu verið á höfuðborgarsvæðinu. 

Flest smit og afleidd smit eru út frá hópsýkingu á hnefaleikastöð í Kópavogi. Samtals hafa minnst 235 smit verið rakin til hennar. Fimmtudaginn 1. október greindist iðkandi í hnefaleikastöðinni með veiruna, eftir að hafa stundað æfingar í húsnæði félagsins. Fimm dögum síðar höfðu tuttugu smit verið rakin til þess, bæði hjá iðkendum félagsins og öðrum sem höfðu verið í návígi við þá. Daginn eftir höfðu á sjötta tug smita verið rakin þangað. Sá fjöldi hefur næstum fjórfaldast á einni viku. 

Alls smituðust 55 inni á stöðinni. Þaðan dreifði veiran sér áfram áfram til 180 annarra einstaklinga og hefur komið af stað að minnsta kosti fimm minni hópsýkingum. Þær tengjast meðal annars skólum, líkamsrækt og skemmtistöðum.

219 smit út frá skemmtistað í upphafi þriðju bylgjunnar

Næst stærsta hópsýkingin telur 219 einstaklinga. Þar smituðust að minnsta kosti 45 á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur, sem aftur smituðu 174 aðra. Út frá þessu hafa farið af stað fimm minni hópsýkingar, meðal annars í skólum og leikskólum. „Sú útsetning sem átti sér stað þarna helgina í miðbænum sem tengist skemmtistöðum, það var upphafið á þessari bylgju í raun og veru,“ segir Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningardeildar Almannavarna.

Auk þess eru að minnsta kosti 10 aðrar hópsýkingar, þar sem 30 til 50 manns hafa smitast, víðs vegar um höfuðborgarsvæðið. Jóhann Björn segir erfitt að fullyrða hvernig smitin berast á milli manna. „Líklega er þetta mest dropasmit. Eitthvað getur verið snertismit en oftast eru þetta samverkandi þættir.“

Lítið um tilviljanakennd smit

Flestir smitast af sínum nánustu, fjölskyldu, vinum eða vinnufélögum. „Hvort sem það er bar, skemmtistaður, fermingarveisla, þar sem fólk kemur saman, þar getur orðið stór útsetning, það eru þessir stóru hópar sem við sjáum myndast,“ segir Jóhann Björn. „Tilviljanakennd smit í kringum verslun og þjónustu erum við ekki að sjá,“ segir hann. Enda sé lítið um smit hjá starfsfólki á slíkum stöðum.

Raðgreining veirunnar hefur leitt í ljós að 1.120 hafa veikst af sömu gerð veirunnar, sem hefur verið nefnd bláa veiran. Aftur á móti er græna veiran, sem olli annarri bylgju faraldursins síðsumars, horfin úr samfélaginu.