Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Þetta gerir eitthvað fyrir mann“

14.10.2020 - 15:58
Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn
Sjósund er ekki allra meina bót, manni líður bara vel á eftir segir Guðni Hannesson, formaður Sjóbaðsfélags Akraness.

Landinn slóst í för með félaginu, sem hittist þrisvar í viku í Jaðarsbakkalaug og dýfir sér svo í sjóinn á Langasandi.

Sjóbaðsfélag en ekki sundfélag

Félagið var stofnað árið 2011. Bryndís Ólöf Guðjónsdóttir, félagi í Sjóbaðsfélaginu, segir nokkuð stóran hóp sækja sjóböð reglulega en að þetta sé metnaðarlausasta félag landsins, þess vegna heiti það baðfélag, fólk er bara að baða sig. Það er miðað við að fólk sé eina mínútu fyrir hverja gráðu í sjónum, segir Guðni en að það sé misjafnt hversu lengi fólk sé í sjónum, það fari bara upp úr þegar því verði kalt.

Guðlaug hluti af samastað félagsins

Árið 2018 varð baðstaðurinn Guðlaug hluti af samastað félagsins. „Þetta er vissulega frábær viðbót, gaman að liggja hérna á veturna þegar það fer að brima og svona,“ segir Guðni. Aðspurður af hverju hann sæki áfram sjósund svarar Guðni: „Þetta gerir eitthvað fyrir mann.“

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður