Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Samherji vill hefja laxeldi í Helguvík

14.10.2020 - 11:35
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Norðurál og Samherji hafa undirritað viljayfirlýsingu um kaup Samherja á lóð og byggingum Norðuráls í Helguvík. Þar hyggst Samherji koma á fót laxeldi og nýta þær byggingar sem þar eru og voru ætlaðar til að hýsa álver Norðuráls.

Kaupverð liggur ekki fyrir

Fréttablaðið greindi frá þessu í morgun. Þar kemur fram að Samherji hafi þegar hafið frumathugun á aðstæðum til laxeldis í Helguvík. Kaupverð liggur ekki fyrir en mannvirki Norðuráls í Helguvík eru 23 þúsund fermetrar og landið um 100 hektarar. Til þess að orðið geti af sölunni þarf að breyta samningum Norðuráls og sveitarfélaga á Suðurnesjum sem gerðir voru á sínum tíma. Ríkið á landið sem álverið stendur á og breyta þyrfti leigusamningi við Reykjaneshöfn um afnot á henni. Reykjaneshöfn framleigir lóðina til Norðuráls.

Staðið tómt í rúm 10 ár

Skóflustunga að fyrirhuguðu álveri Norðuráls í Helguvík, var tekin í júní 2008. Stóðu vonir til að álverið yrði gangsett árið 2010. Það gekk ekki eftir þar sem ekki tókst að uppfylla orkuþörf versins. Kerskálarnir hafa því staðið ónýttir allt frá því að þeir voru reistir árið 2008.

Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar í Reykjanesbæ, treysti sér ekki til að tjá sig um málið í samtali við fréttastofu í morgun og vísaði á Kjartan Má Kjartansson bæjarstjóra. Ekki náðist í Kjartan við vinnslu fréttarinnar.