
Íslenskt fiskeldi jókst um 77 prósent milli ára
Þetta kemur fram í tölum frá Hagstofu Íslands. Þar segir að fiskeldi, í tonnum talið, hafi aukist um 77% milli áranna 2018 og 19. Útflutningsverðmæti jókst úr 13 milljörðum króna árið 2018, í 24 milljarða árið 2019. Eða um rúma 11 milljarða króna.
Laxeldið úr 300 í 27.000 tonn á tæpum áratug
Í samantekt Hagstofunnar kemur fram að tæp 300 tonn af laxi voru framleidd á Íslandi árið 2008. Fjórum árum síðar voru tonnin orðin tæplega 3.000 og um 8.400 tonn voru framleidd árið 2016. Síðan þá hefur laxeldið vaxið hratt og gríðarlegur vöxtur varð á milli áranna 2018 og 19 eins og fyrr segir.
Sáralítið eldi á regnbogasilungi
Laxeldið ber höfuð og herðar yfir allt annað fiskeldi hér á landi. Bleikjueldi hefur haldist nokkuð stöðugt, en þó aukist jafnt og þétt síðustu ár. Mest er aukningin þar milli áranna 2018 og 2019, en um 6.300 tonn af eldisbleikju voru fremleidd á síðasta ári. Sáralítið er nú alið af regnbogasilungi. Mest var eldið árin 2016 og 2017 og fór þá mest í rúm 4.600 tonn á ári.
Enn meiri aukning framundan
Það er enn meiri aukning framundan í fiskeldi, en fjöldi umsókna bíður afgreiðslu hjá Matvælastofnun. Laxar-fiskeldi fengu 10 þúsund tonna leyfi fyrir sjókvíaeldi í Reyðarfirði í byrjun mánaðarins og þá fékk Landeldi 100 tonna leyfi fyrir lax og bleikju á Öxnalæk í Ölfusi. Þá liggja fyrir níu umsóknir um sjókvíaeldi fyrir samtals 50 þúsund tonn. Munar þar mestu um 10 þúsund tonna viðbótarleyfi hjá Arctic Sea Farm í Dýrafirði. Mun færri umsóknir eru um landeldi, en þar styttist í að fimm rekstrarleyfi verði gefin út.