Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ísland breytir ekki afstöðu til afvopnunarsamnings

epa04703661 (FILE) A file picture dated in 1996 of Russian S-300 air defence missiles at a military training camp in Russia. Russia on 13 April 2015 lifted a ban on delivering sophisticated surface-to-air defence missiles to Iran, citing recent progress
Rússneskt S-300 loftvarnarkerfi. Mynd: EPA - EPA FILE
Ekki stendur til að Ísland gerist aðili að kjarnorkubannsamningnum sem undirritaður var árið 2017, þar sem stjórnvöld óttast að hann missi marks án þess að kjarnorkuveldin sjálf fullgildi samninginn. Áskorun fyrrverandi ráðherra breyti engu um þá afstöðu. 

Í atkvæðagreiðslu um samninginn á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á sínum tíma greiddu 122 ríki með samningnum og Holland eitt gegn honum. Singapúr sat opinberlega eitt hjá. Það voru hins vegar 69 sem ekki greiddu atkvæði, þar á meðal voru öll kjarnorkuríki heimsins og allir aðilar að Atlantshafsbandalaginu, þar á meðal Ísland. 

Fyrrum stjórnmálaleiðtogar í þeim ríkjum sem sátu hjá rituðu opið bréf til leiðtoga þeirra og hvöttu þá til að samþykkja samninginn. Meðal annars þrír fyrrverandi ráðherrar í ríkisstjórn Íslands. Það eru  Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, og Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra.

Afstaða Íslands alltaf verið skýr

Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu segir að umrætt bréf hafi borist bæði forsætis- og utanríkisráðuneytinu þann 21. september. Varðandi afstöðu Íslands til kjarnorkuvopna og afvopnunar segir í svarinu að afstaðan sé afdráttarlaus; Ísland tali skýrt fyrir mikilvægi kjarnorkuafvopnunar. Ísland og íslensk landhelgi séu friðlýst fyrir kjarnavopnum í þjóðaröryggisstefnu landsins. Bent er á að Ísland hafi talað fyrir því að kjarnavopnum sé eytt með markvissum hætti og stutt margvíslegar ályktanir um það innan Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins. 

Grundvallarforsenda stefnunnar sé staða Íslands sem fámennrar eyþjóðar sem hvorki hefur burði né vilja til að ráða yfir her, þess í stað sé öryggi landsins tryggt með samvinnu við önnur ríki.

epa07752028 Activists from IPPNW Germany and ICAN Germany wear masks of US President Donald J. Trump (R) and Russian President Vladimir Putin (L), holding mock nuclear missiles as they demonstrate against the ending of the Intermediate-Range Nuclear Forces Treaty (INF) in front of the American Embassy at Pariser Platz in Berlin, Germany, 01 August 2019. The INF treaty, signed 01 June 1988, is due to end on 02 August 2019 after US President Donald J. Trump announced the US withdrawl in October 2018 and formally suspending it on 01 February followed by Russia in 02 February 2019.  EPA-EFE/OMER MESSINGER
 Mynd: EPA
Skopstæling á Vladimír Pútín og Donald Trump á mótmælum í sumar.

Enginn árangur nema kjarnorkuríkin taki þátt

En hvers vegna greiddi Ísland þá ekki atkvæði um Kjarnorkubannsamninginn árið 2017?

Í svari utanríkisráðuneytisins segir, að Ísland telji raunhæfustu leiðina til afvopnunar kjarnavopna að hrinda í framkvæmd samningum um bann við útbreiðslu kjarnavopna (NPT), og um allsherjarbann við tilraunum með kjarnavopn (CTBT). Þar sé skilyrði að helstu kjarnavopnaveldin séu þátttakendur. 

Ísland hafi gert grein fyrir afstöðu sinni, að eina leiðin til að vernda heiminn frá hættu af kjarnavopnum sé að útrýma þeim. Árangri í þeim efnum verði hins vegar aðeins náð með beinni þátttöku ríkja sem búa yfir kjarnorkuvopnum. Án þeirra missi samningurinn marks og samþykkt samningsins án þeirra geti í raun unnið gegn því markmiði að heimurinn verði kjarnorkuvopnalaus, því kjarnorkuríkin séu ekki skuldbundin því samstarfi.

Óttast að engin takmörk verði á fjölda kjarnavopna

En kemur til greina að verða við áskorun þessara fyrrum stjórnmálaleiðtoga, sem sendu fyrrnefnt bréf og hvöttu til þess að kjarnorkusamningurinn verði samþykktur?

Í svari utanríkisráðuneytisins segir að flest ríki heims séu einhuga um að stefna skuli að heimi án kjarnavopna, en þróun undanfarinna ára sé áhyggjuefni. Ísland muni áfram taka virkan þátt í umræðu um mikilvægi afvopnunar kjarnavopna, en á þessari stundu sé ekki gert ráð fyrir því að Ísland gerist aðili að samningnum vegna þessa ótta um að samningurinn missi marks. 

Bent er á mikilvægi samningsins sem gerir ráð fyrir banni við útbreiðslu kjarnavopna (NPT), þar sem í honum sé ákvæði um kjarnaafvopnun. Helstu kjarnavopnaveldin eiga aðild að honum, en endurskoðun fer fram á næsta ári þar sem Ísland tekur þátt. 

Þá er bent á að tvíhliðasamningur um langdræg kjarnavopn rennur út á næsta ári. Mikilvægt sé að Bandaríkin og Rússland bregðist við því þar sem engin takmörk verða á fjölda slíkra vopna ef samningurinn rennur út.