Faraldurinn ekki á niðurleið – Bylgjan stærri en fyrsta

14.10.2020 - 12:50
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ljóst að faraldurinn sé ekki á niðurleið. „Ég held að það sé nokkuð augljóst að þessi bylgja stefnir í að verða stærri en bylgjan sem var í vetur. Bæði getur hún farið hærra og hún getur enst lengur, það getur tekið lengri tíma að slá á hana. Þannig að uppsafnaður fjöldi sem greinist í þessari bylgju verður sennilega meiri heldur en fyrr í vetur,“ segir hann í viðtali í hádegisfréttum.

Óvissa um álagið á spítalann

Nýgengi innanlandssmita, það er fjöldi smita síðustu 14 daga á hverja hundrað þúsund íbúa, er nú 268,9. Það er hæsta nýgengi sem mælst hefur hér á landi. Áður var það mest í byrjun apríl þegar það var 267,2. Nú eru 1.132 í einangrun og 3.409 í sóttkví. 24 eru á sjúkrahúsi og þrír á gjörgæsludeild.

 

Þórólfur segir erfitt að spá fyrir um hvert álagið verður á Landspítalann næstu daga og vikur. „Við sjáum ekki mikla sveiflu inn á spítalann núna, en það getur breyst mjög hratt, sérstaklega þegar svona margir eru að bætast í hópinn,“ segir hann. 

Ekki tímabært að slaka á takmörkunum

Þórólfur gerir ráð fyrir að skila minnisblaði til heilbrigðisráðherra á morgun með tillögum um næstu skref í sóttvarnaaðgerðum. Hann segir að það virðist að minnsta kosti ekki tímabært að slaka á takmörkunum. „Ég held hins vegar að þessar aðgerðir sem eru núna í gangi, að við séum ekki farin að sjá nein óyggjandi merki um árangurinn af þeim. Og ég held líka að það geti tekið lengri tíma að sjá árangurinn,“ segir hann.

Greinast fleiri börn í ákveðnum aldurshópum

Þórólfur segir ekkert hafa verið ákveðið um það hvort takmarkanir verða hertar enn frekar. „Já, það er bara allt til skoðunar í því,“ segir hann.

Aðspurður hvort það komi til greina að herða takmarkanir í skólum, í ljósi þess fjölda barna sem hafa smitast og þurft að sæta sóttkví segir hann að sérstaklega sé verið að skoða smit hjá börnum á leik- og grunnskólaaldri og bera þau saman við sýkingar síðasta vetur: „Þetta er svolítið öðruvísi. Það er tekið miklu meira af sýnum hjá börnum heldur en var þá. Og það hafa verið að greinast heldur fleiri í ákveðnum aldurshópum en mismunurinn er ekkert svo sláandi milli nýgengi sýkinga þá og nú í þessum aldurshópum, þótt hún kunni að vera eitthvað aðeins hærri núna,“ segir Þórólfur.

Þá segir hann að ekki sé mikið um smit innan skólanna og að þau smit sem greinist í skólunum séu rakin til fólks sem kemur utan frá. „Og ég held við þurfum að hafa það í huga að það yrði gríðarlega mikið högg að loka skólunum.  Það myndi valda mjög miklum vandræðum í samfélaginu, foreldrar þyrftu að vera heima hjá börnum og það myndi valda miklum vandræðum á sjúkrahúsum, og við þurfum að skoða alla heildarmyndina,“ segir hann. 

Aðspurður hvort komi til greina að herða enn frekar reglur um veitingastaði eða láta loka þeim segir Þórólfur að það sé allt til skoðunar og að hann tjái sig ekki um einstök atriði í minnisblaðinu. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi