Eftirlitsmyndavélar í Hrísey til að fylgjast með glæpum

14.10.2020 - 14:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Lögreglan á Norðurlandi eystra ætlar að koma upp öryggismyndavélum í Hrísey. Þannig á að bregðast við fjölda tilkynninga vegna meintra afbrota í eynni. Íbúi segir að ástandið í Hrísey sé óboðlegt.

Tilkynningum fjölgar

Undanfarin misseri hefur fjölgað tilkynningum til lögreglunnar vegna meintra afbrota í Hrísey. Tilkynningarnar eru samkvæmt heimildum fréttastofu nær allar um sama manninn, sem ítrekað hefur gerst brotlegur, meðal annars um að aka undir áhrifum áfengis og fíkniefna. 

„Maður er alltaf stressaður“

Hríseyingur sem fréttastofa ræddi við og vildi ekki láta nafns síns getið segir að ástandið sé óboðlegt og margir íbúanna séu áhyggjufullir. Viðkomandi hafi ítrekað keyrt undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Þá hafi börn horft upp á barsmíðar og hótanir. „Maður er alltaf stressaður og þarf að passa að húsið sitt sé læst. Þetta er að verða búið að vera svona hérna á annað ár og þetta gengur ekki lengur.“   

„Áhyggjur íbúa eru skiljanlegar“

Bergur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, kveðst ekki geta tjáð sig um einstök mál en staðfestir að tilkynningum frá Hrísey hefði fjölgað að undanförnu. „Já, það hefur aukist og áhyggjur íbúa eru skiljanlegar. Það er auðvitað engin lögregla á staðnum og við getum verið 30-40 mínútur að koma á vettvang.“ 

Bergur segir að nú sé unnið að því að fá eftirlitmyndavélar í Hrísey. „Með því erum við á einhvern hátt að bregðast við áhyggjum íbúa en það leysir auðvitað ekki vandann. Það hefur fælingarmátt og getur hjálpað okkur í rannsókn mála,“ segir Bergur. 

Hverfisráð Hríseyjar lýsti yfir áhyggjum á síðasta ári

Hverfisráð Hríseyjar fjallaði um aksturslag íbúa á fundi sínum 1. júlí 2019. Þar lýsti ráðið yfir áhyggjum af aksturslagi sumra íbúa. Þar segir einnig að ráðið hafi átt fund með lögreglunni á Akureyri og Dalvík þar sem fram kom að mörgum þætti lögreglan ekki nægilega sýnileg í Hrísey.
 

Óðinn Svan Óðinsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi