Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Yfir 22% atvinnuleysi meðal kvenna á Suðurnesjum

Mynd: Anton Brink / Ruv.is
Mynd: RÚV / RÚV
Heildaratvinnuleysi í september mældist tæplega 10%. Vinnumálastofnun spáir auknu atvinnuleysi á næstu mánuðum og að það fari yfir 11% í nóvember. Atvinnuleysi er sem fyrr mest á Suðurnesjum,19,6%. Þar mælist nú atvinnuleysi meðal kvenna vel yfir 22%. Heildaratvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgarar var nærri 23%.

Það kemur ekki á óvart að atvinnuleysi aukist. Almennt atvinnuleysi er nú níu af hundraði en var í ágúst 8,5%. Þegar teknir eru með þeir sem eru með bætur vegna minnkaðs starfshlutfalls eru 9,5% án vinnu. Tæplega 18.500 voru atvinnulausir í lok september og rúmlega 3.300 voru með skert starfshlutfall og fengu atvinnuleysisbætur. Samtals er þessi hópur tæplega 22 þúsund manns. Vinnumálastofnun spáir því að þeir sem fá bætur vegna skerts starfshlutfalls verði áfram tæpt prósent. Heildaratvinnuleysi í þessum mánuði verði um 10,5% og að í nóvember fari það í 11,3%. Almennt atvinnuleysi verði 10,4%. Það myndi þýða að rösklega 21 þúsund yrðu algjörlega án atvinnu. Ef hlutabótaleiðin er tekin með yrði þessi tala um 25 þúsund.

 

Mesta atvinnuleysið á Suðurnesjum

Atvinnuleysi eykst í öllum landshlutum og það kemur ekki á óvart að mesta atvinnuleysið er sem fyrr á Suðurnesjum. Þar eykst heildaratvinnuleysið um 1,6 prósentustig. Fer úr 18% í 19,6%. Spáð er að það fari í 19,8% í þessum mánuði. Næst mesta atvinnuleysi í september miðað við landshluta var á höfuðborgarsvæðinu um 10 af hundraði og í þriðja sæti er Suðurland með 8,4%. Minnsta atvinnuleysið er á Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra rúmlega þrjú og hálft prósent.

Atvinnuleysi meðal kvenna er meira en meðal karla í öllum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu, 9,8% meðal kvenna þar en 10,3% meðal karla. Kynjamunurinn er þó lang mestur á Suðurnesjunum. Þar eru 17,7 % karla án atvinnu en atvinnuleysi meðal kvenna fór í síðasta mánuði upp í 22,5%.

Yfir 41% erlendir ríkisborgarar

Tæplega 7.700 erlendir ríkisborgarar voru á atvinnu í september sem svarar til um 20 prósenta atvinnuleysis. Á sama tíma í fyrra voru tæplega 2.600 erlendir ríkisborgarar án vinnu. Ef hlutabótaleiðin er tekin með mælist atvinnuleysi í þessum hópi tæplega 23%. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá er nú um 41,5% en var í ágúst 40%. Helmingur þeirra sem eru án atvinnu er frá Póllandi.

Tæplega 3.700 hafa verið án atvinnu í yfir 12 mánuði. Þeim hefur fjölgað um tæplega 1.900 frá sama tíma í fyrra. Þeim sem hafa verið atvinnulausir í sex til 12 mánuði fjölgar, eru nú yfir 5000 talsins. Yfir 1.900 voru atvinnulausir á aldrinum 18-24 ára. Það svarar til um sjö prósenta af skráðu atvinnuleysi.
 

Í Speglinum var rætt við Drífu Snædal forseta Alþýðusambands Íslands og má hlýða á það í spilaranum hér að ofan. 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV