Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stöðva dreifingu á mjólk vegna yfirfulls haughúss

13.10.2020 - 12:33
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Matvælastofnun hefur stöðvað dreifingu mjólkur frá bæ í Hörgársveit þar sem hollustuhættir voru ófullnægjandi. Haughús var yfirfullt svo rann úr því út á heimreiðina. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hefur mjólkurframleiðslu verið hætt á bænum.

„Við förum þarna í eftirlit í byrjun þessa mánaðar, og verðum þá þess áskynja að þar eru hollustuhættir varðandi mjólkurframleiðsluna ekki í lagi. Það var yfirfullt haughús og það rann úr haughúsinu og út á heimreiðina, að hluta til inn á heimreiðina þar sem að mjólkurbíll bakkar að til þess að sækja mjólkina.“ segir Ólafur Jónsson, héraðsdýralæknir norðausturumdæmis Matvælastofnunar. Rigningardagar undanfarið hafi gert ástandið enn verra svo ástandið hafi talið vera óviðunandi.

Sviptur leyfi þar til úrbætur eru gerðar

Þann annan október var bóndanum gefinn frestur til úrbóta en þær hafa ekki enn verið gerðar. Ólafur segir málið því hafa farið í hefðbundið ferli og gefinn réttur til að andmæla. Sá réttur var ekki nýttur og bóndinn því tímabundið sviptur leyfi til þess að afhenda mjólk í mjólkursamlag þar til úrbætur hafa verið gerðar. 

Mjólkurframleiðslu á bænum hætt

Í tilkynningu frá Matvælastofnun kemur fram að hollustuhættir hafi ítrekað verið ófullnægjandi á bænum. Ólafur segir búið hafi verið undir eftirliti Matvælastofnunar á þessu ári og brotin nú hafi komið í ljós við reglubundið eftirlit. Ekki sé talin ástæða til að ætla að skepnur séu vanræktar. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu var jörðin seld fyrir helgi og mjólkurframleiðslu hætt.

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV