Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segist ekki fylgjast með einstaka veggjakroti

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Forsætisráðherra segist ekki fylgjast með einstaka veggjakroti og gerir ekki athugasemdir við að fólk nýti sér slíkt til að koma sjónarmiðum á framfæri. Undirskriftasöfnun þar sem skorað er á Alþingi að samþykkja nýja stjórnarskrá tók verulegan kipp eftir að starfsmenn Stjórnarráðsins hreinsuðu slagorð söfnunarinnar af vegg í miðborginni.

Veggurinn stendur við bílastæði atvinnuvegaráðuneytisins við Skúlagötu og þar hafði verið málað með stórum stöfum:  Hvar er nýja stjórnarskráin?

Starfsmenn frá þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins hreinsuðu vegginn eftir að ábending barst frá rekstrarstjóra ráðuneytisins og í morgun var nánast allt horfið.

Tíu manna hópur ákvað í dag að endurtaka leikinn og skrifa nýtt ákall á grindverk sem liggur aðeins ofar.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist ekki hafa skoðun á því veggurinn hafi verið hreinsaður.

„Nú held ég að þú ættir að spyrja rekstrarfélagið um þeirra stefnu í þessu en það heyrir ekki undir mig og ég er ekki að fylgjast með einstaka veggjakroti á veggjum opinberra stofnana satt best að segja,“ segir Katrín.

„Veggjakrot er alls staðar nýtt sem tæki til að koma sjónarmiðum á framfæri, ég geri engar athugasemdir við það,“ segir Katrín. 

Um 60 prósent landsmanna telja mikilvægt eða mjög mikilvægt að Alþingi samþykki nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili samkvæmt nýrri könnun MMR. 17 prósent eru hlutlaus og 25 prósent telja það frekar eða mjög lítilvægt. Stuðningur hefur aukist frá því í fyrra en þá sögðust 52 prósent frekar eða mjög mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá.

Um 33 þúsund hafa skorað á þingmenn að samþykkja nýja stjórnarskrá í undirskriftasöfnun sem lýkur í næstu viku. Rúmlega fjögur þúsund undirskriftir bættust við eftir að veggurinn var hreinsaður. 

„Nú er það þannig að við þingmenn eru bundnir af gildandi stjórnarskrá, hvernig stjórnarskrá er breytt og það þýðir að það þarf meirihluta þingmanna til að samþykkja breytingu og síðan þarf kosningar og síðan þarf nýtt þing að samþykkja þennan nýja leik og þess vegna hefur það verið mitt markmið að reyna að skapa sem breiðasta samstöðu um breytingar á stjórnarskrá sem byggja á þeirri vinnu sem hefur verið unnin á undanförnum árum og áratugum,“ segir Katrín.

Hún segir jákvætt að þjóðin hafi sterka skoðun á þessu máli.

„Ég vonast til þess að þingið treysti sér í þessa efnislegu og gagnrýnu umræðu um inntak stjórnarskrárákvæða, ég tel að þingið skuldi samfélaginu nákvæmlega þá umræðu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.