Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Minni umferð á ný eftir hertar sóttvarnaaðgerðir

13.10.2020 - 08:15
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Hertar samkomutakmarkanir eru farnar að endurspeglast í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu á ný, rétt eins og í fyrri bylgjum faraldursins. Merkja má samdrátt í umferð á milli vikna eftir að hertar aðgerðir tóku gildi í síðustu viku.

Hertar sóttvarnaaðgerðir tóku gildi á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku. Sundlaugum og líkamsræktarstöðvum var þá meðal annars gert að loka, eins og krám og skemmtistöðum, og fjöldatakmarkanir miðaðar við tuttugu manns þar sem fólk er nú hvatt til þess að vera sem mest heima við.

Greina má áhrifin á götum höfuðborgarsvæðisins, þar sem umferðin í síðustu viku var átta prósentum minni en í vikunni þar á undan, samkvæmt tölum frá Vegagerðinni. Ef miðað er við sömu viku fyrir ári síðan, þá nemur samdrátturinn tuttugu og einu prósenti.

Það svipar til þeirrar þróunar sem varð í mars, þegar faraldurinn breiddist út og fyrst var vart við samdrátt í umferðinni. Þann mánuð dróst umferðin á höfuðborgarsvæðinu einmitt saman um tuttugu og eitt prósent miðað við mars í fyrra, sem jafngildir því að 35 þúsund færri ökutæki fóru um göturnar.

Ef frá er talin ein vika um miðjan júní þar sem umferð jókst milli ára, hefur annars verið stöðugur samdráttur milli vikna, samanborið við árið í fyrra, allt frá því í mars þegar fyrst var farið að grípa til sóttvarnaaðgerða vegna faraldursins.