Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Klisjum um norðrið markvisst beitt sem markaðstæki

Mynd: Bloomsbury / HI

Klisjum um norðrið markvisst beitt sem markaðstæki

13.10.2020 - 13:25

Höfundar

Út er komið metnaðarfullt greinasafn um sterka stöðu norrænu glæpasögunnar á alþjóðavettvangi. Gunnþórunn Guðmundsdóttir, annar ritstjóra bókarinnar, segir að áhugi umheimsins hafi haft áhrif á hvernig Norðurlandaþjóðirnar líta sjálfar á eigin glæpasögur.

Undanfarna áratugi hafa vinsælustu glæpasagnahöfundar heims komið frá Norðurlöndum. Henning Mankell, Jo Nesbo, Stieg Larson, okkar eigin Arnaldur og Yrsa, og Ragnar Jónasson nú síðast. Sögur þeirra eiga margt sameiginlegt og má segja að þau vinni öll innan sömu norrænu glæpasagnahefðarinnar. Nýlega hafa svo skandínavískir sjónvarpsþættir unnið áfram með þessa hefð og fagurfræði, sagt sögur af glæpum og myrkum hliðum norræna velferðarkerfisins. Þættir eins og Broen, Forbrydelsen, Wallander, Ófærð og Brot.

Fræðimenn eru einnig farnir að veita þessari skáldskapargrein athygli og nú á dögum kom út veglegt fræðirit um norrænar glæpasögur hjá Bloomsbury útgáfunni í Bretlandi. Annar ritstjóra þessara viðamikla greinasafns er Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands.

Uppruna bókarinnar má rekja til ráðstefnu sem haldin var í Háskóla Íslands í samstarfi við Háskólann í Newcastle og Iceland Noir glæpasagnahátíðina. Eitt af því sem rætt var á ráðstefnunni og fjallað er um bókinni er stimpillinn sem er settur á þessar bækur og þætti. Hér á Íslandi er yfirleitt talað um þessa stefnu sem norrænu glæpasöguna en víða erlendis er talað um Scandi Noir eða Nordic Noir – norrænar rökkursögur.

„Það er það sem við erum að velta fyrir okkur í bókinni: Af hverju þetta noir. Er það bara af því það rímar svo vel við Nordic eða er það eitthvað sem fundið var upp í hálfgerðu bríaríi og svo bara festist það? Eða eru dýpri rætur þarna? Það er eitt af helstu umfjöllunarefnum bókarinnar,“ segir Gunnþórunn í viðtali í Lestinni á Rás 1. „Er þetta noir eitthvað hjálplegt til að skilja þessa tegund eða er þetta yfirborðslegt markaðsheiti? Í bókinni er ein grein eftir Björn Norðfjörð þar sem hann talar um að það séu mjög lítil tengsl milli hins ameríska noir, svona rökkurmynda sem við þekkjum, og hins vegar norrænu glæpasögunnar. Svo eru aðrir sem taka noir í víðari skilningi. Að vissulega séu þarna fyrirbæri, til dæmis hvernig borgin er notuð í sjónvarpsseríum eins og Broen og Forbrydelsen, þar sem borgin er notuð kannski á svipaðan hátt og í Hollywood noir-inu. Oft er epísk sýn á borgina en líka horft á jaðarinn, rökkrið í borginni og jaðarsvæðin.“

Nordic Noir blómstrar í engilsaxneskum örmum

Glæpasagan hefur í aldanna rás verið þverþjóðlegt fyrirbæri, segir Gunnþórunn, og nær yfir fleiri miðla en einn. Í bókinni er því umfjöllun um bókmenntirnar en líka um sjónvarpsseríurnar, sem hafa ekki síst orðið áhrifamestar í breiða út ákveðna fagurfræði og sýn frá norrænu glæpasögunni. Upphaf norrænu glæpasögunnar má rekja til 7. og 8. áratugarins, þegar bækur Sjöwall og Wahlöö komu út. Það er löng hefð fyrir því að þýða norrænar bækur og gefa þær út í Þýskalandi og Frakklandi en fyrirbærið blómstraði ekki alþjóðlega fyrr en engilsaxneski heimurinn tók við sér.

„Af því að engilsaxneski heimurinn er ákaflega ráðandi í dægur- og sjónvarpsmenningu, að þegar þeir byrjuðu að þýða þetta og náði vinsældum á breskum og bandarískum markaði, þá breyttist umhverfið mjög mikið. Þá fer þetta virkilega að breiðast út. Fyrst með bókunum, Henning Mankell, Jo Nesbø og Arnaldi og fleirum, en svo fer engilsaxneski heimurinn að taka við sjónvarpsseríunum líka. Það var nýtt, að það skyldi vera sýnt á besta tíma á breskum sjónvarpsstöðvum efni með texta. Textað efni var aldrei sýnt á besta tíma í breska sjónvarpinu. Ég man eftir því þegar ég bjó í London á 10. áratugnum að þá var Riget eftir Lars von Trier sýnt klukkan 11 á þriðjudagskvöldum. Þannig að það að 10 árum síðar að seríur eins og Forbrydelsen og Broen séu sýndar á besta tíma og verða gríðarlega vinsælar, það breytti gjörsamlega ásýnd glæpasögunnar í víðum skilningi.“

Norræna rökkrið breiðir úr sér

Það sem hefur greint norrænar glæpasögur frá öðrum er hið þjóðfélagslega sjónarhorn, að glæpasagan geti verið samfélagslegur spegill. Inn í þetta spilast einnig ímyndir norðursins í huga almennings á öðrum slóðum. „Það er þetta norður sem er mystískt og eitthvað rökkur yfir. Þá eru ákveðnar tegundir af svona norrænum glæpasögum sem gerast á mjög afskekktum stöðum og taka á þessu skelfilega veðri og myrkri og svo framvegis. Við sjáum til dæmis þætti eins og Ófærð sem hafa notfært sér þær klisjur með norðrið og innilokun og mörk og jaðar. Þetta er eitthvað sem hefur höfðað mjög mikið til ímyndunaraflsins og markaðsins skulum við segja.“

Gunnþórunn segir einnig að greina megi merki um að klisjurnar og áhugi umheimsins hafi áhrif á það hvernig hinar norrænu þjóðir líta á eigin sjónvarpsgerð. „Það hafa verið leiddar að því líkur að til dæmis danskt sjónvarpsefni sé farið að nota þetta miklu meira markvisst til þess að selja seríurnar alþjóðlega og séu farnir að horfa allt öðru vísi á eigið sjónvarpsgerð, sem var upphaflega bara fyrir innlendan markað og svo norrænan markað. Þessi alþjóðlegi áhugi geri það að verkum að það verði til svona sjálfs-exótísering. Sjáið hvað við erum öll niðursnjóuð, hvað það er mikið myrkur og melankólía. Líka í litum, útliti og hönnun. Bestu dæmin eru svona sjónræn dæmi, um hvað fólk heldur að sé norrænt, en svo er þetta líka eitthvað sem maður sér í markaðssetningu bókmenntanna líka.“

Vinsældirnar hafa verið miklar síðustu áratugi en það lítur út fyrir að það sé farið að hægjast um á alþjóðlegu markaðstorgi Nordic Noir segir Gunnþórunn. „Seríurnar eru aðeins farnar að hægja á sér. Vissulega eru þær enn til, en Brúin er búin og Forbrydelsen eru búnar. Það er búið að gera amerískar endurgerðir en þeirra augnablik er aðeins að líða hjá mögulega. En svo gerir einhver nýja seríu og þá breytist landslagið aftur. Hins vegar hefur maður séð aðrar seríur sem taka mjög mikið af fagurfræðinni og umræðuefnunum, eins og The Fall og The River í Bretlandi. Útbreiðslan fer fram á alls konar máta. Svo eru alls konar lönd komin með eigið noir, eins og Tartan Noir í Skotlandi og Irish Noir og svo framvegis.“

Hægt er hlusta á viðtal við Gunnþórunni Guðmundsdóttir í Lestinni á Rás 1 í heild í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Móðir „nordic noir“ hættir störfum hjá DR

Sjónvarp

„Nordic noir“ er búið að vera

Bretar eru brjálaðir í Nordic Noir