Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Kallaður á fund SÞ vegna heimildamyndar

13.10.2020 - 04:28
Mynd með færslu
 Mynd: PIRAYA FILM/WINGMAN MEDIA
Daninn Ulrich Larsen hefur verið kallaður á fund nefndar Sameinuðu þjóðanna sem fylgist með Norður-Kóreu. Danska ríkisútvarpið greindir frá þessu og hefur þetta eftir Larsen sjálfum. Hann sýndi fréttamönnum DR bréf sem hann fékk frá nefndinni þann 23. september. 

Heimildamynd Larsens, Moldvarpan, var frumsýnd á ríkissjónvarpsstöðvum Norðurlandanna og Bretlandi á sunnudag. Þar gerir hann grein fyrir því hvernig hann villti á sér heimildir sem vopnasölu- og eiturlyfjabraskari í Norður-Kóreu. Þar kemur fram að ráðamenn í ríkinu eru tilbúnir að fara á svig við viðskiptabann Sameinuðu þjóðanna með ýmsum ráðum. Larsen vann að gerð myndarinnar í tíu ár.

Larsen er boðaður í viðtal vegna aðildar sinnar í vináttusamtökum Kóreu, KFA. Hann verður fenginn til þess að athuga hvort norðurkóresk stjórnvöld hafi gerst sek um að brjóta gegn viðskiptabanni Sameinuðu þjóðanna. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV