Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Innfæddir mótmæltu ofbeldi Kólumbíu

13.10.2020 - 06:56
epa08739311 Colombian indigenous take part in motorcade for the Pan American way to reach Cali, Colombia, 12 October 2020. The three-days indigenous march is a protest against the violence against its people and other important themes, according to Feliciano Valencia Colombian Senator who represents to the indigenous.  EPA-EFE/ERNESTO GUZMAN JR
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Þúsundir innfæddra Kólumbíumanna gengu fylktu liði í borginni Cali í suðvestanverðu landinu. Þeir kröfðust þess að endi verði bundinn á ofbeldi í þeirra garð.

Kröfugangan var haldin í gær, sama dag og margir fagna komu Kristófers Kólumbus til Ameríku árið 1492. Afkomendur frumbyggjaþjóða voru klæddir grænu og rauðu, og stefndu að því að komast á fund Ivan Duque, forseta Kólumbíu, sem var í borginni. Franky Reinosa, fulltrúi frumbyggjaþjóða í Caldas-héraði, sagði helstu ástæðu kröfugöngunnar vera að mótmæla kerfisbundnum fjöldamorðum á landsvæðum þjóðanna án þess að stjórnvöld skiptu sér af þeim. Jafnframt krefjast þeir þess að fá að vera með í ráðum þegar ákvarðanir eru teknar um stórfelldar framkvæmdir á landsvæðum þeirra.

Koma Kólumbusar til Ameríku er ekki í miklum metum hjá afkomendum þeirra sem byggðu álfuna þegar hann kom. Reinosa segir við AFP fréttastofuna að fyrir þeim hafi þetta verið upphafið af stærstu þjóðarmorðum sögu þeirra. 

Mikill fjöldi innfæddra býr í suðvestanverðri Kólumbíu, við landamærin að Ekvador. Íbúar á svæðinu hafa orðið fórnarlömb gríðarlegs ofbeldis. Samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna hafa minnst 42 fjöldamorð verið framin á svæðinu það sem af er ári.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV