Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Barrett segir lög og reglur muni ráða úrskurðum sínum

epa08741275 Supreme Court nominee Amy Coney Barrett listens during a confirmation hearing before the Senate Judiciary Committee, on Capitol Hill, Washington, DC, USA, 13 October 2020.  EPA-EFE/Patrick Semansky / POOL
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL
Hæstaréttardómaraefnið Amy Coney Barrett kveðst munu leggja persónulegar skoðanir sínar til hliðar við ákvarðanatöku í mikilvægum málum. Hún þagði þó þunnu hljóði um hvaða afstöðu hún tæki til þungunarrofs, þegar hún kom í fyrsta sinn fyrir dómsmálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings.

Barrett sagðist taka tillit til mismunandi sjónarmiða í erfiðum málum á borð við heilbrigðismál, kynhneigð fólks, byssueign eða þungunarrof. Hún þykir hafa staðið sig vel í dómarastörfum sínum og dómsniðurstöður hennar sagðar vel ígrundaðar. 

Trump þarf skjóta niðurstöðu

Nú eru þrjár vikur til forsetakosninga og Demókratar á þinginu hafa krafist þess að öldungadeildin fresti málflutningi sínum fram yfir kosningar. Jafnframt hefur tímasetningin verið gagnrýnd harðlega vegna mikillar útbreiðslu kórónuveirusmita. Gert er ráð fyrir að málflutningurinn taki fjóra daga.

Trump forseti, sem enn hefur minna fylgi en Biden í skoðanakönnunum, er sagður telja sig þurfa að fá skjóta niðurstöðu til að efla stuðning frá íhaldssömum kjósendum.

Demókratar ásaka forsetann um að vilja hraða vali á hæstaréttardómara til að tryggja sér hliðhollan dómara - komi til þess að niðurstöður forsetakosninganna komi til kasta dómstólsins.

Barrett vildi ekki tjá sig um hvort hún viki sæti, kæmi til málaferla vegna kosninganna. „Ég er ekki skuldbundin neinum varðandi hvernig ég sker úr málum, hvorki í öldungadeildinni né í Hvíta húsinu,” sagði hún og bætti við að hún gæti lagt allar skoðanir sínar til hliðar - þar á meðal trúarskoðanir en Barrett er gegnheill kaþólikki.

„Það eina sem ég hef á stefnuskrá minni er að láta lög og reglur ráða niðurstöðum mínum. Ég mun úrskurða í hverju máli fyrir sig,“ sagði Barrett eftir spurningu frá öldungadeildarþingmanninum Dianne Feinstein um hvort hún teldi niðurstöðu tímamótadóms í þungunarrofsmáli frá 1973 ranga.

Sögð andstæðingur þungunarrofs og sjúkratryggingakerfis

Demókratar hafa fullyrt að Barrett hyggist snúa niðurstöðu dómsins sem kenndur er við málssókn Roe gegn Wade. Þar er kveðið á um rétt kvenna til þungunarrofs uns þroski fósturs er nægilegur til að það geti lifað sjálfstæðu lífi utan líkama konunnar. Það gerist yfirleitt á 22. til 24. viku.

Jafnframt segja Demókratar Barrett harðan andstæðing sjúkratryggingakerfis Bandaríkjanna sem kennt er við Barack Obama forseta. Hluti kerfisins á að koma til kasta hæstaréttar í nóvember og því eigi að knýja skipun Barrett í gegn.

Aðspurð um afstöðu sína til þess ítrekaði Barrett fylgispekt sína við lögin, og sagði fjarri lagi að hún væri fjandsamleg í garð sjúkratryggingalaganna. Feinstein öldungadeildarþingmaður harmaði að fá ekki skýr svör varðandi afstöðu dómaraefnisins til viðkvæmra mála af þessu tagi.

„Dómarar vakna ekki bara upp einn daginn og koma dansandi inn í réttarsal eins og drottning í ríki sínu og bera heiminum harðar niðurstöður sínar varðandi málefni á borð við byssueign eða þungunarrof,“ sagði Barrett.

Hún hefur þó, að sögn Demókrata, orðað andstöðu sína við þessi málefni, bæði í ræðu og riti. Í öldungadeild Bandaríkjaþings sitja nú 47 Demókratar og 53 Repúblikanar. Því þykir harla líklegt að Barrett verði næsti hæstaréttardómari enda nánast ómögulegt fyrir Demókrata að stöðva málflutninginn.

Með því verður meirihluti íhaldssamra dómara tryggður næstu áratugina.