Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV

Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.
Tvö skip farin til mælinga í haustralli Hafró
12.10.2020 - 13:46
Stofnmæling botnfiska að haustlagi (haustrall) er hafin hjá Hafrannsóknastofnun. Tvö skip taka þátt í verkefninu og standa rannsóknirnar yfir næstu fjórar vikur.
Farið hefur verið í stofnmælingu botnfiska að haustlagi síðan 1996 og er þetta 25. haustrallið. Verkefnið er alltaf unnið með sambærilegum hætti, svæðinu er skipt í grunn- og djúpslóð og er togað niður á allt að 1.300 metra dýpi.
Rannsóknaskipið Árni Friðriksson og skuttogarinn Múlaberg SI taka þátt að þessu sinn og munu toga á rúmlega 370 stöðvum umhverfis landið.
Í frétt á vef Hafrannsóknastofnunar kemur fram að helsta markmið þessarra rannsókna sé að fylgjast með breytingum á stofnstærð, aldri, fæðu, ástandi og útbreiðslu botnfisktegunda við landið. Erfðasýni verða tekin úr grálúðu sem verður einnig merkt. Athuganir verða gerðar á botndýrum og mat lagt á hve mikið er af ýmisskonar rusli á sjávarbotni.