Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tvær leiðir að kýpverskum vegabréfum

12.10.2020 - 00:22
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Dæmdir glæpamenn virðast geta fengið vegabréf í Kýpur með aðstoð hátt settra embættismanna í landinu. Þetta leiðir rannsókn Al Jazeera fréttastofunnar í ljós. Samkvæmt rannsókninni eru tvær leiðir að vegabréfinu, þar sem umsækjendur þurfa að reiða fram meira fé ef umsókn þeirra reynist flóknari.

Um tveir mánuðir eru síðan Al Jazeera birti umfjöllun sína um Kýpur-skjölin svonefndu. Þau sýndu að kýpversk yfirvöld hunsuðu eigin lög og reglur til þess að færa glæpamönnum og flóttamönnum kýpversk vegabréf í gegnum hið umdeilda fjárfestingaverkefni ríkisins, CIP. Kýpverskt vegabréf er einkar dýrmætt þeim sem vilja eiga viðskipti í Evrópu, þar sem Kýpverjar eru með aðgang að innri mörkuðum Evrópusambandsins og geta ferðast innan þess án vegabréfsáritana. 

Þingforseti og þingmaður til aðstoðar

Meðal þeirra sem taka þátt í því að aðstoða ríka útlendinga við að fá vegabréf eru þingforsetinn Demetris Syllouris og þingmaðurinn Christakis Giovani. Hann er einnig meðal stærstu fasteignafjárfesta í landinu.

Kýpversk stjórnvöld gagnrýndu umfjöllun Al Jazeera á sínum tíma og sögðu að nokkur mistök hafi verið gerð í ferlinu. Lög hafi verið hert og rannsóknir á bakgrunni umsækjenda væru orðnar nákvæmari.

Fulltrúar ímyndaðs glæpamanns

Al Jazeera sendi rannsóknarblaðamenn til Kýpur til þess að athuga hvort glæpamenn gætu enn fengið vegabréf. Þeir þóttust fulltrúar kínversks fjárfestis sem hafði verið dæmdur fyrir mútur og spillingu, en vildi fá kýpverskt vegabréf. Niðurstöður þeirra voru að vegabréfið sé dýrara eftir því sem umsóknin er flóknari.

„Því hærra, því betra“

Haft er eftir Andreas Pittadjis, lögmanni tengdum CIP, að reglurnar til þess að fá vegabréf séu hvergi skráðar. Ef það koma upp einhver vandamál og fjárfestar vilja að vegabréfin verði gefin út fljótt, þá verður bara að fara hærra innan kerfisins. Það sé svo undir hverjum og einum komið hversu hátt hann vilji leita. „Því hærra, því betra," hefur Al Jazeera eftir Pittadjis.

Fyrsti fundurinn er með réttum fasteignasala. Al Jazeera ræðir við Tony Kay á fasteignasölunni Sold on Cyprus. Hann segir að það verði að byrja á því að komast yfir stóru hindrunina, sjö ára fangelsi. „Ef það eru einhver vandamál, þá er dýrara að fá það sem þú vilt. Við þurfum því að finna út úr því við hvern við þurfum að tala, og hverjum þarf að borga, í hverju þarf að fjárfesta," sagði Kay við blaðamann Al Jazeera. 

Leiddir alla leið til þingforseta

Kay leiðir blaðamanninn á fund verktakafyrirtækisins Giovani Group. Antonis Antoniou, framkvæmdastjóri þess, lætur vita að því hærri sem fjárfestingin er verður leiðin greiðari. Antoniou vísar blaðamanninum á lögmanninn Pittadjis. Hann bendir á nokkrar leiðir til þess að komast fram hjá reglum CIP. Til að mynda með því að búa til skúffufyrirtæki, færa þvættuðu peningana á nafn eiginkonu fjárfestisins, eða jafnvel að breyta nafni hans til þess að komast hjá því að yfirvöld finni upplýsingar um glæpi hans í fortíðinni. Aðspurður hvort hann hafi gert þetta áður svarar Pittadjis: „Að sjálfsögðu, þetta er Kýpur!"

Umsóknarferli hins ímyndaða umbjóðanda blaðamannanna nær hámarki með fundi þeirra og forseta þingsins. Þingforseti er næst æðsta embætti Kýpurs. Eftir að hafa fengið upplýsingar um fortíð umbjóðandans segir Demetri Syllouris við blaðamennina að þeir fái fullan stuðning hans. Hann segist 99% viss um að vegabréfsumsóknin verði samþykkt.

Segjast hafa verið að afla upplýsinga

Allir neituðu mennirnir því að hafa verið að gera nokkuð saknæmt þegar blaðamennirnir báru sönnunargögnin undir þá. Þeir Pittadjis og Kay sögðust hafa áttað sig á því að umbjóðandinn hafi átt að vera glæpameður og þeir hafi spilað með á meðan þeir öfluðu fleiri upplýsinga um hann. Starfsmenn Giovani Group sögðu fundina með blaðamönnunum hafa verið notaða til þess að afla upplýsinga sem yrðu síðar færðar yfirvöldum ef grunur léki á einhverju misjöfnu. Pittadjis segist hafa skilað skýrslu til peningaþvættisdeildar kýpverskra yfirvalda eftir að blaðamennirnir fóru. Syllouris segist ekki hafa veitt umbjóðanda þeirra neina þjónustu, og hann hafi treyst á að fá upplýsingar um manninn frá yfirvöldum.

Heimildamynd Al Jazeera um málið verður birt á vef fréttastofunnar í dag.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV