Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Telja manninn hafa verið látinn þegar ábendingin barst

12.10.2020 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Það er mat lögreglunnar á Suðurlandi að maðurinn sem fannst látinn í brunnum bíl í Grafningi á laugardag, hafi þegar verið látinn þegar ábending barst Neyðarlínu um eldinn klukkan hálftólf á föstudagskvöld. Þetta segir Oddur Árnason yfirlögregluþjónn. Ábendingin átti að skila sér til fjarskiptamiðstöðvar Ríkislögreglustjóra en gerði það ekki og lögregla fékk á endanum ekki tilkynningu um málið fyrr en í hádeginu daginn eftir.

Þá var bíllinn mikið brunninn og í honum fundust líkamsleifar manns á fertugsaldri.

Vitnið langt frá en skyggnið var gott

Lögreglan bað í dag vitni að gefa sig fram, þeirra á meðal ökumann sem innhringjandinn á föstudag kvaðst hafa séð á vettvangi, eins og Morgunblaðið greindi frá.

„Það er eitt af því sem við höfum óskað eftir, að viðkomandi sem er þar á ferðinni þegar eldurinn er hvað mestur gefi sig fram við lögreglu – ef þetta er rétt. Vitnið er í nokkurri fjarlægð en veður og aðstæður voru þannig að viðkomandi sér vel á vettvanginn,“ segir Oddur.

Margir sáu bjarma en tilkynntu ekki

Þegar hafa einhver vitni gefið sig fram. „Það eru fleiri sem telja sig hafa séð bjarma af eldi á þessum tíma án þess þó að tilkynna það sérstaklega,“ segir hann. Það sé ekki endilega óeðlilegt að tilkynna ekki um slíkt.

„Það hefur nú verið í gegnum tíðina ansi oft sem menn hafa verið með varðelda og svoleiðis í sumarbústaðalöndum þannig að það er svo sem ekkert nýtt að sjá eld einhvers staðar. Þessi eldur hefur hins vegar verið af þeirri stærðargráðu að hann hefur allavega vakið töluverða athygli þarna,“ segir Oddur.

Allt opið í rannsókninni

Spurður hvort málið sé rannsakað sem sakamál eða eitthvað annað, segir Oddur allt opið.

„Við erum bara með allt opið og nei, við erum ekkert í þá áttina frekar en neina aðra. Við viljum bara ekki láta teyma okkur í neina átt frekar en aðra, við viljum bara láta staðreyndirnar tala sínu máli.“