Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Tekist á í málflutningi um skipun dómara

epa08739196 Surrounded by family members, Supreme Court nominee Judge Amy Coney Barrett concludes the first day of her Senate Judiciary Committee confirmation hearing on Capitol Hill in Washington, DC, USA, 12 October 2020.  EPA-EFE/WIN MCNAMEE / POOL  ALTERNATIVE CROP
 Mynd: EPA-EFE - GETTY IMAGES POOL
Varaforsetaefni Demókrata sagði á þingi í dag að það skipti Repúblíkana meira máli að skipa hæstaréttardómara í Bandaríkjunum sem fyrst en hjálpa almenningi í heimsfaraldri. Fjöldi manns mótmælti við þinghúsið þegar öldungadeildin hóf málflutning vegna skipunar Amy Coney Barrett í hæstarétt. 

Barrett, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti útnefndi sem hæstaréttardómara fyrir hálfum mánuði, mætti ásamt fjölskyldu sinni á fund öldungadeildarinnar í dag. Demókratar hafa gagnrýnt harðlega að málflutningurinn eigi sér stað fyrir forsetakosningarnar. Fyrir utan safnaðist fjöldi manns saman, bæði þeir sem mótmæltu skipuninni og þeir sem styðja hana.

En orðaskiptin snerust um meira en að skipa dómara fyrir kosningar. „Þú ert skipuð af forseta sem sýnir stjórnarskránni fyrirlitningu en hikar ekki við að segja dyggum fylgismönnum sínum að þú hafir verið skipuð í dómaraembættið til að vinna hans pólitísku verk, að afnema sjúkratryggingarlögin,“ sagði Dick Durbin þingmaður Demókrata, en þeir hafa haldið fram að milljónir Bandaríkjamanna missi trygginguna ef Barrett verði valin í Hæstarétt.

„Ég mótmæli hverjum sem er, í hvert sinn sem einhver reynir að eigna þér afstöðu í pólitískum málum. Þú ert ekki löggjafi. Þú ert dómari,“ sagði Mike Lee þingmaður Repúblíkana.

Lee er nýstiginn upp úr Covidsmiti og varaforsetaefni Demókrata, Kamala Harris, gerði faraldurinn einmitt að umtalsefni. „Repúblikanar á öldungadeildinni hafa sýnt með skýrum hætti að það að staðfesta skipun hæstaréttardómara með hraði skiptir meira máli en að hjálpa og styðja bandarísku þjóðina sem á í höggi við banvæna farsótt og djúpa efnahagslægð.“

Barrett sjálf ávarpaði einnig þingið og sagði það ekki hlutverk réttarins að móta stefnu. „Þegar ég var 21 árs og að hefja minn feril sat Ruth Bader Ginsburg í þessu sæti. 16 Ég hef verið tilnefnd til að setjast í sæti Ginsburg dómara en enginn getur komið í stað hennar.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV