Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Sökin liggur í tölvukerfi Neyðarlínunnar

12.10.2020 - 15:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hönnunargalli á tölvukerfi Neyðarlínunnar olli því að símtal sem barst þangað á föstudagskvöld um eld í í húsbíl í Grafningi var ekki skráð á verkefnalista lögreglu eins og gert er ráð fyrir. Þetta er niðurstaða athugunar Neyðarlínunnar og Ríkislögreglustjóra, að sögn Tómasar Gíslasonar, aðstoðarforstjóra Neyðarlínunnar.

Símtalinu var beint til fjarskiptamiðstöðvar Ríkislögreglustjóra en þar svaraði enginn og eftir tæpa mínútu gafst innhringjandinn upp. Venjulega eru slík símtöl samt skráð á verkefnalista og þá hringt til baka. Í ljós hefur komið að það gerist ekki ef álagið á símkerfið er mjög mikið eins og var á föstudagskvöld – þá fara þau símtöl ekki á skrá sem eru allan tímann í biðröð í kerfinu en er aldrei beint í neitt tiltekið símtæki.

Tómas segir að mönnum hafi einfaldlega yfirsést þessi möguleiki og þetta verði lagað í dag eða fyrramálið.

Uppfært kl. 16.51: Í tilkynningu frá Ríkislögreglustjóra er atvikið harmað. Tilkynningin er svohljóðandi:

„Ríkislögreglustjóri og 112 harma það mjög að símtal þar sem tilkynnt var um eld við Torfastaði í Grímsnesi hafi ekki skilaði sér í útkalli slökkviliðs og lögreglu á svæðinu.

Markmið lögreglu og 112 er fyrst og fremst þjónustuhlutverk við almenning í landinu þegar neyð steðjar að.

Tæknilegir annmarkar urðu til þess að lögregla fékk ekki tilkynningu um atburðinn áður en innhringjandi sleit símtali. Það skýrist af því að mál stofnaðist ekki í kerfum sem fjarskiptamiðstöð og 112 vinna með þegar símtalið var flutt á milli. Þegar hefur verið sett af stað vinna til þess að bæta hugbúnað svo slíkt geti ekki endurtekið sig.“

Lýst eftir vitnum

Lögregla fékk tilkynningu um húsbílinn á hádegi daginn eftir og fann þá í honum líkamsleifar manns á fertugsaldri. Í dag var það fólk beðið að gefa sig fram sem var á ferð um Grafning eða þar nálægt á milli tíu og tólf á föstudagskvöld. Sérstaklega var lýst eftir ökumanni bíls sem innhringjandinn í Neyðarlínuna sagðist hafa séð við eldinn um klukkan hálftólf.

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, sagði við fréttastofu fyrr í dag að hans fólk mæti það sem svo að maðurinn hafi þegar verið látinn þegar ábendingin barst Neyðarlínunni.