Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Segir Polarstern sögulegan áfanga í loftslagsrannsóknum

12.10.2020 - 19:46
epaselect epa08737016 The research ice breaker Polarstern returns from its MOSAIC mission in Bremerhaven, Germany, 12 October 2020. The vessel started its journey in September 2019 and drifted with a big ice floe in the arctic ocean. During the one-year-long mission, hundreds of scientists explored the climate system of the polar region.  EPA-EFE/FOCKE STRANGMANN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Umfangsmesta og dýrasta rannsóknarleiðangri um norðurslóðir lauk í dag, þegar ísbrjóturinn Polarstern kom til hafnar í Þýskalandi. Leiðangursstjórinn segir að gögnin sem safnað var eigi eftir að gjörbylta loftslagsrannsóknum á Norðurslóðum.

Polarstern lagði úr höfn í Tromsö í Noregi tuttugasta september í fyrra. Hann sat fastur í ís allan veturinn, rak yfir Norðurpólinn og gerði um leið fjölda rannsókna, sem ekki hefur gefist tækifæri til að gera áður. Antje Boetius, forstjóri Alfred-Wegener stofnunarinnar í Þýskalandi segir að gögnin sem safnað var eigi eftir að reynast dýrmæt. „Það eru engar veðurstöðvar í Norður-Íshafinu. Það þýðir að gögnin okkar þaðan eru afar verðmæt. Og við þurfum góðar upplýsingar til að skilja betur, mæla og útbúa spár um afdrif okkar hér í Evrópu.“

Skipið lagðist að bryggju í Bremerhaven í Þýskalandi í morgun eftir einn flóknasta og dýrasta rannsóknarleiðangur sögunnar. Gert var ráð fyrir að 130 milljónum evra yrði varið til verkefnisins, jafnvirði tæplega 24 milljarða íslenskra króna. Á fimmta hundrað vísindamanna tók þátt, frá 37 löndum. Á blaðamannafundi í dag sögðu vísindamenn leiðangurinn breyta miklu fyrir rannsóknir á loftslagsbreytingum, því þeirra verði fyrst vart á Norðurslóðum, og þær geti síðan haft áhrif um allan heim. Markus Rex leiðangursstjóri segir þetta sögulegan áfanga. „Við höfum skilgreint framtíð heimskautarannsókna upp á nýtt. Við náðum miklum árangri og ég tel óhætt að segja að þessi leiðangur hafi verið sögulegur áfangi í pólarannsóknum og verði það í langan tíma. Nú snúum við heim með fjársjóð gagna og sýna sem breyta loftslagsrannsóknum til frambúðar,“ segir Markus. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV