Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Partý sem myndi enda mjög illa

12.10.2020 - 14:04
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarir
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segist ekki vera spenntur fyrir þeirri hugmynd fólks að reyna að ná sér í veiruna til að ljúka veikindum af og geta um frjálst höfuð strokið. Það gæfi slæmt fordæmi að fólk sem hefur náð sér af veirunni kæmi saman í einhverskonar Covid partý.

Í gær var birt viðtal á mbl.is við ungan mann sem hefur náð sér af kórónuveirunni og hyggst bjóða öllum þeim sem hafa myndað mótefni við veirunni til gleðskapar. Þríeykið var spurt út í þessi áform á upplýsingafundi Almannavarna í morgun. Þórólfur var spurður að því hvort að slíkur gleðskapur væri nokkuð í trássi við sóttvarnarlög.

„Ef við erum bara að hugsa um veiruna, þá kannski gengi það upp. En ég held að það myndi skapa ákveðið fordæmi sem ég er ekkert alltof viss um að allir myndu virða, það er að segja hvort að þeir væru með mótefni eða ekki. Ég held að þetta myndi líka gefa tilefni til að fólk færi að reyna að fá þessa veiru svo að það geti farið í partý, og það gæti endað mjög illa. Ég held að menn verði að líta aðeins lengra inn í framtíðina með svona hugmyndir, en sem unglingur þá myndi ég alveg skilja þessa hugmynd vel “ segir Þórólfur. 

Fólk getur verið smitberi þó það sé með ónæmi

Víðir Reynisson tók undir með Þórólfi og sagði að það væri siðferðilegt álitamál sem vert væri að spyrja sig hvort að það eigi að leyfa ákveðnum hópum í samfélaginu meira heldur en öðrum.  Alma D. Möller landlæknir rifjaði upp orð sín um að þó svo að fólk hafi náð sér af Covid-19 geti það áfram borið smit á milli fólks og staða. Sóttvarnarráðstafanir nái einnig til þeirra sem hafa náð heilsu á ný.

„Þeir sem hafa fengið Covid, þó þeir séu komnir með mótefni þá geta þeir verið veikir í lungum og það er hægt að fá aðrar veirur og bakteríur í lungun. Fólk getur verið með veiruna á höndunum og borið hana á milli þó það sjálft sé ónæmt. Svo við hvetjum einnig þá sem eru búnir að fá Covid að fara varlega hvað varðar sóttvarnir.“ segir Alma.

Þórólfur segir að þeir sem hafa mælst með mótefni geti óskað eftir vottorði þess efnis, bæði frá hinu opinbera og frá Íslenskri erfðagreiningu.