Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mikil vonbrigði að lesa um golfhring Þorgerðar

12.10.2020 - 14:13
Frá þingsetningu 6. desember 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að það hafi verið mikil vonbrigði að lesa fréttir um að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir þingmaður Viðreisnar hafi farið svig við tilmæli sóttvarnaryfirvalda og spilað golf í Hveragerði. Þingmenn á landsbyggðinni leggi mikið á sig til að sinna störfum sínum í breyttu landslagi.

Takmarkanir hafa sett strik í reikninginn

Eftir að hertar samkomutakmarkanir á höfuðborgarsvæðinu tóku gildi um miðja síðustu viku voru landsmenn hvattir til að vera ekki vera á ferðinni til og frá höfuðborgarsvæðinu nema í nauðsyn. Þessar takmarkanir hafa sett strik í reikninginn fyrir marga landsbyggðarbúa sem sækja vinnu á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst þingmenn. Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins er einn þeirra. Hann hefur nú verið á Akureyri í rúma viku. 

„Ég persónulega hef bara tekið þetta tiltölulega alvarlega, að fara sem minnst suður meðan á þetta ástand varir. Ég hef svona hugsað mér að reyna að lengja sem mest í því tímabili meðan við erum að komast í gegnum versta kúfinn. Vonandi á næstu viku eða svo." 

„Undanfarna viku þá hef ég verið heima á Akureyri og verið þá bara mest í fjarfundum. Þetta geta verið tveir, þrír, fjórir fjarfundir á dag og bara gengið mjög vel. Við búum það vel í nefndum Sjálfstæðismanna við erum með tvo, þrjá fulltrúa í hverri nefnd þannig að við getum þá svolítið spilað það hverjir taka þátt í umræðunni í þingsal á meðan á þessu strendur." 

Súrt að lesa fréttir um þingmann í golfi í Hveragerði

Um helgina var greint frá því að þingmaður Viðreisnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefði spilað golf í Hveragerði þvert á tilmælin. Njáll Trausti segir að á meðan þingmenn á landsbyggðinni búi við þennan veruleika sé súrt að lesa slíkar fréttir. 

„Já þetta voru vonbrigði. Ég tek þessu alvarlega og ég vona að flestir geri það en þetta voru vonbrigði. Auðvitað hefur Þorgerður Katrín sagt um helgina að þetta hafi verið óafsakanlegt en þetta var mjög óheppilegt og ég get sagt það óhikað að þetta voru mikil vonbrigði."

Fleiri þingmenn laga sig að breyttum aðstæðum

Njáll er ekki eini þingmaðurinn á landsbyggðinni sem vinnur nú við breyttar aðstæður. Fréttastofa ræddi við nokkra þingmenn í dag ýmist ætla að halda til á höfuðborgarsvæðinu eða sinna þingstörfum að heiman. 

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir þingmaður Samfylkingarinnar fer svipaðar leið  og Njáll Trausti. Hún hefur nú verið á Akureyri, frá því um miðja síðustu viku, sinnt störfum sínum í gegnum fjarfundabúnað og reiknar ekki með að á því verði breyting næstu daga.

Logi ekki farið heim í tvær vikur

Þá hefur Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og fimmti þingmaður kjördæmisins, tekið þá ákvörðun að halda til á höfuðborgarsvæðinu eins og sakir standa. Logi sem alla jafna er búsettur á Akureyri hefur dvalið á höfuðborgarsvæðinu í tvær vikur. Hann reiknar ekki með að breyting verði á því og segir óábyrgt að ferðast til og frá borginni nema brýna nauðsyn beri til.