Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Landvörðum á Þingvöllum sagt upp störfum

12.10.2020 - 14:52
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Átta landvörðum og einum verkefnisstjóra hjá Þjóðgarðinum á Þingvöllum var sagt upp í morgun. Þjóðgarðsvörður segir að algjört tekjufall hafi orðið í sértekjum þjóðgarðsins í faraldrinum og að núverandi fjárveiting á fjárlögum dugi skammt. Það sé ekki hræða á Þingvöllum og því þurfi að grípa til uppsagna.

 

„Við höfum verið í sambandi við Umhverfisráðuneytið síðan í vor um hvernig sé hægt að bregðast við þessari stöðu. Sértekjur þjóðgarðsins  vegna ferðamanna hafa gufað upp.“ segir Einar Ásgeir Sæmundssen, þjóðgarðsvörður. 

Hann segir mikla endurskipulagningu vera fram undan innan þjóðgarðsins. Þær fjárveitingar sem eru á fjárlögum dugi ekki til að halda úti landvörslu á ársgrundvelli líkt og gert hefur verið seinustu ár. Því séu uppsagnirnar afturför fyrir þjóðgarðinn. Hann segir að náttúra Þingvalla sé ekki í hættu í ljósi þess að það sé enginn á ferli á Þingvöllum.

„Það er enginn á Þingvöllum. En það verða áfram 2-3 starfsmenn og ég vona að þjónustumiðstöðin verði áfram opin eftir áramót, að minnsta kosti um helgar. Og svo þegar vorar að fólk fari að koma aftur og þá verður vonandi hægt að ráða þetta góða fólk aftur til starfa.“ segir Einar. 

Uppsagnirnar taka gildi 1. febrúar og vonar Einar að það verði hægt að ráða stóran hluta starfsfólksins aftur með vorinu. Horft verði til þess að endurráða starfsmennina þegar færi gefst.