Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Grímulausar umræður en grímur í sætunum

12.10.2020 - 16:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Forsætisráðherra var spurður út í fjármálaáætlun, tekjutengingu atvinnuleysisbóta og skýrslu um sóttvarnarlög í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

Sú breyting hefur verið innleidd í störfum þingsins að þingmenn bera grímur í sætum sínum, en ekki í ræðustól Alþingis.

Forsætisráðherra var innt eftir því af þingmönnum meðal annars hvort að tekjutenging atvinnuleysisbóta verði framlengt, útrekininga lífeyrisréttinda og hvort að grunnatvinnuleysisbætur verði hækkaðar. Þá var skýrsla Páls Hreinssonar um endurskoðun á sóttvarnarlögum tekin til umræðu af Sigríði Á. Andersen, þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Hún spurði forsætisráðherra út í skýrsluna og úrbætur á sóttvarnarlögum sem þurfi að gera. 

„Ekki seina vænna myndi ég nú segja að löggjafinn taki til umræðu hér sóttvarnaraðgerðir og þær lagaheimildir og forsendur sem menn hafa verið að beita hingað til. Niðurstaða Páls í grófum dráttum er tvenns konar. Hún er annars vegar sú að það þurfi að fara fram heildarendurskoðun á sóttvarnarlögum. En hin niðurstaða Páls er sú að sóttvarnarlög séu haldin þvílíkum ágöllum og þess vegna bendir páll á það að það þurfi að ráðast í útbætur á sóttvarnarlögunum strax.“ segir Sigríður. 

„Þá má segja að réttur fólks til lífs og heilsu trompi auðvitað ýmis önnur réttindi, og það er stóra niðurstaðan í þessari greinargerð sem ég hef boðist til að fara ítarlega yfir hérna í þinginu því að þrátt fyrir að Íslendingar hafi gengið skemur í ýmsum sóttvarnarráðstöfunum en velflest önnur Evrópuríki, skemur þegar horft er til þess hvað hefur verið gert hér. Nægir bara að nefna ríki þar sem sett hefur verið útgöngubann, börnum hefur verið haldið heima og fleira þá hefur komið upp hér töluverð umræða svo ég vil endilega eiga hana hér og hef boðið hana fram hvenær sem er þegar þingið kallar.“ segir Katrín.

Atvinnumál og bætur áberandi í umræðunni

Logi Einarsson spurði forsætisráðherra hvort hvaða rök væru fyrir því að hækka ekki grunnatvinnuleysisbætur. Hún svaraði því þannig til að bætur hefðu verið hækkaðar. Ræða þurfi það í heildarsamhengi um tryggingargjald og atvinnuleysisbætur. 

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar spurði forsætisráðherra um fyrirkomulag framlengingar tekjutengingar atvinnuleysisbóta. Þeir sem hafi misst vinnuna snemma í faraldrinum hafi ekki geta notfært sér framlengt úrræði stjórnvalda í haust. Hún kallaði aðgerðir stjórnvalda bútasaum og það þurfi að laga. Katrín sagði að tekjutenging atvinnuleysisbóta væri til skoðunar innan félagsmálaráðuneytis.

Katrín segist ekki geta fallist á bútasaums líkingu þingmannsins, enginn hafi geta séð fyrir þann veruleika sem nú blasir við. Það sé lengri tíma úrlausnarefni að takast á við afleiðingar faraldursins og veruleikinn sé síbreytilegur, samanber breytt grímunotkun í þingsal, en þingmenn báru grímur í sætum sínum í þingsal í dag.

Mynd með færslu
Hann Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar

Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólksins sagði að öryrkjar og ellilífeyrisþegar væru að bugast á ástandinu og kallaði eftir hækkun bóta. Útreikningur þeirra væri furðulegur og misvísandi og spurði forsætisráðherra um hennar sjónarmið. Skattlagning sé falin fyrir þennan hóp.

Katrín svaraði því til að öryrkjar og aldraðir verði ekki fyrir skattahækkunum. Gripið hafi verið til aðgerða til að lækka skatta á tekjulægsta fólkið. Um skerðingar segir hún að Alþingi hafi ákveðið að draga úr skerðingum í örorkukerfinu í frumvarpi sumarið 2019. 

Spurði um meðalhóf í sóttvarnaraðgerðum

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata spurði Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra út í meðalhóf og lögmæti sóttvarnaraðgerða. Hún spurði hvort að stjórnvöld væru að miðla nægilega til almennings hvort að meðalhófsreglu væri beitt við ákvarðanatöku í almannavarnamálum.

 

Mynd með færslu

Áslaug Arna svaraði því til að umræðan væri af hinu góða. Ræða þurfi þá línu sem sé dregin hverju sinni í aðgerðum og ákvarðanatöku ríkisstjórnarinnar. Spyrja þurfi erfiðara spurningu um af hverju verið sé að taka erfiðar ákvarðanir og hvaða áhrif þær hafa á almenning. 

400 prósent fleiri umsóknir um vernd en í Danmörku og Noregi

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins gerði málefni hælisleitenda að umræðuefni. Það vekti athygli að á sama tíma og lítið væri um ferðalög til og frá landinu væri mikið um að fólk leitaði hingað til lands í leit að alþjóðlegri vernd. Umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landinu séu 400 prósent fleiri á árinu 2019 en í Danmörku og Noregi. Hann kallaði eftir skýringum dómsmálaráðherra á þessu og hvað gæti útskýrt að fólk leitaði frekar hingað til lands en til þessara ríkja.

Áslaug svaraði því til að það væri áskorun fyrir kerfið að taka á móti þessum fjölda fólks og að unnið sé að því að stytta málsmeðferðartíma. Aldrei hafi fleirum verið veitt alþjóðleg vernd en á árinu 2019. Það sé verið að leita skýringa á því hvers vegna fólk leitar frekar til Íslands en annara ríkja í kring með tilliti til lagasetningar og málsmeðferðartíma.