Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ekki allir Bretar á sama veirubát

12.10.2020 - 18:45
Mynd: EPA-EFE / UK PARLIAMENT
Bretland er ofarlega á einum versta heimslistanum, listanum yfir útbreiðslu Covid-19. Í dag kynnti Boris Johnson forsætisráðherra hertari aðgerðir og mun ávarpa þjóðina í kvöld. En það er víða urgur og ergelsi því nú eru aðgerðirnar staðbundnar, ekki allir Bretar á sama veirubátnum.

Covid-19 rimma milli landshluta

Baráttan gegn Covid-19 faraldrinum í Bretlandi hefur snúist upp í rimmu milli landshluta. Rimmu um að komast hjá hörðum staðbundnum aðgerðum, eða alla vega fá þá efnahagsaðstoð. Þetta mátti heyra í þingumræðum í dag þegar Boris Johnson forsætisráðherra kynnti nýjar veiruráðstafanir og meðfylgjandi efnahagsráðstafanir, sem eiga að milda áhrifin af mismiklu samkomubanni víða um land.

Veiruaðgerðir í veitingageiranum umdeildar

Hér í Bretlandi er gengið út frá að krár séu líklegir smitstaðir. Veiruaðgerðir ríkisstjórnarinnar, lokun klukkan tíu á kvöldin og hvergi fleiri en sex í hóp, beinast að og bitna á krám og veitingahúsum. Ýmsir borgar- og bæjarstjórar og eins atvinnurekendur víða um land vilja fá að sjá svart á hvítu vísindalega úttekt á smithættu, hvaða vísindalegu forsendur séu fyrir aðgerðum sem beinast að veitingageiranum. Veitingahúsaeigendur eru líka óánægðir að vera flokkaðir með krám, ekki sömu aðstæður þar. Veitingahús eigi því ekki að sæta sömu hömlum. Þetta er deilumál víða um landið enda mörg störf í veitingageiranum.

Ör fjölgun Covid-tilfella óumdeilanleg

Ör fjölgun veirutilfella er hins vegar óumflýjanleg staðreynd hér. Eins og Margaret Harris frá Alþjóða heilbrigðisstofnunni sagði í viðtali við breska ríkisútvarpið í dag þá er Bretland númer fjögur á heimslistanum yfir flest tilfelli í síðustu viku, á eftir Indlandi, Bandaríkjunum og Brasilíu.

Vísindamenn hnykkja á alvarlegri stöðu

Á kynningarfundi vísindamanna í Downing stræti í morgun var hnykkt á alvarlegri stöðu, þá til að styrkja aðgerðirnar sem forsætisráðherra kynnti svo. Vísindamennirnir hnykktu á að vissulega væru tölurnar nú ekki sambærilegar tölum frá í vor, miklu meira skimað nú, en horfurnar þó ljóslega ógóðar.

Fjöldi eldri Covid-sjúklinga vex

Það er einnig áhyggjusamlegt að þó tilfellin núna séu flest meðal fólks á þrítugsaldri er greinilegt að fjöldi tilfella í eldri aldurshópum fer vaxandi. Það boðar ekkert gott því eins og við höfum lært af sárri reynslu: eldra fólki er hættara við að verða alvarlega veikt, og erfiðara að bjarga því.

Fleiri Covid-sjúklingar á spítala nú en í vor

Covid-innlagnir á sjúkrahús eru atriði til umhugsunar. Eins og prófessor Stephen Powis, yfirmaður í enska heilbrigðiskerfinu, benti á í dag þá eru nú fleiri veirusjúklingar á sjúkrahúsum hér en voru þegar stjórnin tilkynnti víðtæka lokun þann 23. mars.

Efnahagsaðgerðir til að blíðka bæjar- og sveitastjórnir víða um land

Þetta lá því allt fyrir þegar Boris Johnson forsætisráðherra kynnti aðgerðir sínar í þinginu í dag. Viðleitni stjórnarinnar er að allt fari saman: að bjarga mannslífum, halda verndarhendi yfir heilbrigðiskerfinu og halda skólunum opnum – og svo um leið að halda hagkerfinu gangandi, sagði forsætisráðherra. Hann lofaði líka staðbundnum efnahagsaðgerðum í takt við staðbundnar hömlur. Eftir harðar samningaviðræður helgarinnar við bæjar- og borgarstjóra eru þetta sárabætur til staða sem eru eða verða hálf-lokaðir vegna veirunnar. Stóra nýjungin er þrískipt kerfi, sem ákvarðar veiruáhættuna og þá hvaða ráðstafanir eru í gildi, allt eftir útbreiðslu veirunnar, tekur gildi á miðvikudaginn. Allt til að einfalda fólki að fylgja reglum.

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar tortryggir aðgerðirnar

Keir Starmer leiðtogi Verkamannaflokksins taldi ástandið minna óþægilega á vorið og nú þyrftu aðgerðirnar að bíta. En Starmer er ekki lengur eins leiðitamur og áður. Nei, þvert á móti, hann var efins. Starmer sagðist ekki geta leynt forsætisráðherra því að hann efaðist stórlega um að ríkisstjórnin hefði nokkra áætlun til að takast á við veiruna, vernda störf og vinna aftur traust fólks. Það væri orðið erfitt að láta forsætisráðherra njóta vafans, sagði Starmer og nefndi dæmi um hvernig sífellt hefði verið of lítið að gert og of seint.

Munurinn nú og í vor: mun meiri þekking nú

Eins og víðar hanga þung veiruský yfir Bretlandi. En munurinn nú og í vor er þó að það er mun meiri þekking á veirunni og ekki síst, mun betri upplýsingar. Þeim sem gengur vel að nýta nýjustu veiruþekkinguna og miðla henni mun takast betur upp en öðrum.