
Búið að laga gallann í símkerfi Neyðarlínunnar
„Fyrst vil ég nú byrja á að votta aðstandendum samúð út af þessu hörmulega slysi sem þarna hefur orðið. Við höfum varið deginum í að reyna að finna út hvað gerðist. Þetta er eins og oftast er þegar verða mistök að þarna eru margir samverkandi þættir,“ segir Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Símtalinu var svarað hjá Neyðarlínunni sem sendi það áfram til fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra. Þar svaraði enginn og eftir tæpa mínútu gafst innhringjandinn upp.
„Og við finnum síðan ekki spor um símtalið í kerfunum. Þetta er mjög sorglegt, við erum að meðaltali með 8,4 sekúndna svartíma og þetta eru sjötíu þúsund símtöl á ári,“ segir Sigríður Björk.
Venjulega eru símtöl sem ekki er svarað skráð á verkefnalista og þá hringt til baka. Í ljós hefur komið að það gerist ekki ef álagið á símkerfið er mjög mikið eins og var á föstudagskvöld – þá fara símtöl sem ekki er beint í ákveðin síma ekki á skrá.
Sigríður Björk segir að á áttunda tímanum í kvöld hafi þessi galli á kerfinu verið lagaður. Þá hafi undanfarið staðið yfir sameiginleg vinna milli Neyðarlínunnar og ríkislögreglustjóra við að bæta kerfið.
„Við erum akkúrat að reyna að fyrirbyggja þessi tvöföldu símtöl. Að það sé fyrst hringt inn til Neyðarlínu og símtalið svo flutt yfir til lögreglu. Þannig við frekar reynum að svara bara einu sinni. Og það samstarf er að þéttast núna mjög og þetta tilraunaverkefni fer af stað bara núna í næstu viku. Við erum að gera allt sem við getum til að svona mál geti ekki endurtekið sig.“