Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Afstaða til hlutdeildarlána byggð á vísbendingum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Það er mat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að hlutdeildarlán nýtist þeim hópum sem til var ætlast. Stofnunin lagði fram upplýsingar á fundi velferðarnefndar Alþingis í morgun, en ekki liggja þó fyrir endanlegar greiningar á stöðunni. Formaður velferðarnefndar hefur áhyggjur af því að úrræðið gæti á endanum ekki nýst þeim sem helst þurfa.

Í minnisblaði sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, HMS, lagði fram á fundi velferðarnefndar Alþingis í morgun segir að RÚV hafi fullyrt í fréttum sínum um helgina að fáar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu fullnægðu skilyrðum um veitingu hlutdeildarlána. Rétt er að í fréttum var ávallt talað um að svo virtist vera sem það væri raunin, miðað við þau mörk sem sett eru í reglugerðardrögum um hlutdeildarlán.

Það eru lán sem eiga að gera ungu eða tekjulágu fólki kleift að kaupa fyrstu íbúð. Enga vextir eða afborganir þarf að greiða af lánunum. Samkvæmt þeim má til dæmis ný stúdíóíbúð ekki kosta meira en 32 milljónir, íbúð með tveimur svefnherbergjum ekki meira en 49,5 milljónir og með þremur svefnherbergjum 54 milljónir að uppfylltum stærðarskilyrðum. 

Lögin taka gildi 1. nóvember. Miðað er við að 400 lán verði veitt á ári, samtals að upphæð fjóra milljarða króna.

Tóku ekki saman fjölda svefnherbergja

Í minnisblaðinu sem starfsmenn HMS lögðu fyrir á fundi velferðarnefndar í morgun er farið yfir sölu nýrra íbúða á fyrstu átta mánuðum ársins. Þar kemur eftirfarandi fram:  

  • 545 nýjar íbúðir voru seldar sem hefðu uppfyllt skilyrði til hlutdeildarlána
  • 220 af þeim íbúðum eru á höfuðborgarsvæðinu, eða 40,4%
  • 285 af þeim íbúðum eru á vaxtarsvæðum í kringum höfuðborgarsvæðið, eða 52,3%
  • 40 af þeim íbúðum eru á landsbyggðinni, utan vaxtarsvæða, eða 7,3%

Einnig er tekið fram að 310 nýjar íbúðir seldust sem ekki hefðu uppfyllt skilyrðin. 

Í minnisblaðinu er fjöldi svefnherbergja hins vegar ekki tekinn fram, þrátt fyrir að herbergjafjöldi sé sérstaklega tekinn fram í reglugerðardrögunum sem nú eru til umsagnar. Þegar fréttastofa óskaði eftir nánari upplýsingum frá HMS bárust þau svör að ef herbergjakrafan sé tekin inn í jöfnuna væru það um 275 íbúðir sem uppfylltu kröfurnar, samkvæmt vinnugögnum hagdeildar HMS, sem er enn með málið í greiningu. Tölurnar í minnisblaðinu væru vísbendingar um stöðuna.

Það er á þessum vísbendingum sem HMS telur ekki hættu á að hlutdeildarlán nýtist ekki þeim hópum sem til var ætlast. Í minnisblaðinu segir að því sé ekki ástæða til að ætla annað en að áætlanir um veitingu lána til kaupa á 400-500 íbúðum sem falla undir þessi mörk um stærð og herbergjafjölda geti vel gengið eftir.

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar.

Hefur áhyggjur af handahófskenndum útdrætti

Haft var eftir Helgu Völu Helgadóttur, formanni velferðarnefndar Alþingis, í fréttum RÚV í gær að margar spurningar kvikni þegar reglugerð um hlutdeildarlán sé skoðuð. Þau séu sennilega ekki ætluð fyrir íbúðir sem þegar hafi verið byggðar, heldur þurfi að ráðast í uppbyggingu á ódýrum í búðum.

Helga Vala segir í samtali við fréttastofu að umræðurnar á fundi velferðarnefndar í morgun hafi verið gagnlegar. Hún segist ekki geta véfengt þær tölur sem stofnunin leggur fram um fjölda seldra íbúða á þessu tímabili. 

En er nógu nákvæmt að benda á íbúðir sem seldar voru fyrr á árinu í þessu samhengi?

„Byggingartími íbúða er 12-24 mánuðir og ég geri ráð fyrir að einhverjir aðilar séu farnir af stað nú þegar. Við eigum bara eftir að sjá hvernig þetta gengur,“ segir Helga Vala, og bendir á að Seðlabankinn hafi veitt hlutdeildarlánum jákvæða umsögn á þeim grundvelli að fjöldi íbúða í kerfinu myndi ekki hafa neikvæð áhrif á fasteignamarkaðinn og fjárfestingar venjulegs fólks. Íbúðaverð myndi ekki rjúka upp, né hrapa miðað við fjölda íbúða sem ætti að byggja með hlutdeildarlánin í huga.

Helga Vala segir að hennar áhyggjur snúi helst að því að ef umsóknir um lánin séu verði umfram framboð, þá verður dregið út af handahófi. Þannig gæti þetta úrræði ekki endilega gagnast þeim sem helst þurfa. Það sé meðal þeirra áhyggjuradda sem komu fram á fundinum í morgun, auk þess sem helstu áhyggjurnar snúa að því að flækjustig lánanna verði of mikið.